Þróunin

Hér er kafli um hestinn í dýraríkinu og þættir úr þróunarsögu hans. Þessi kafli er hluti af verkefni sem unnið var haustið 2008 á námskeiðinu Náttúra Íslands við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kennari í þessum hluta námskeiðsins var Hrefna Sigurjónsdóttir. Höfundur: Ragnheiður Þorgrímsdóttir.


Hesturinn tilheyrir ríki heilkjörninga en dýraríkið er undirríki þess. Hann tilheyrir fylkingunni seildýr og flokki í dýraríkinu sem kallast hryggdýr. Þau hafa liðskiptan hrygg til að verja mænuna og bera uppi líkamann og stoðgrind úr brjóski eða beini, stóran heila innan í höfuðkúpu og oftast tvö pör útlima. Til hryggdýra heyra ættbálkar fiska, froskdýra, skriðdýra, fugla og spendýra. Hesturinn er spendýr (Mammalia) en þau hafa heitt blóð, eru flest hærð og þau næra ungviði sitt á mjólk sem myndast í mjólkurkirtlum kvendýrsins. Flest spendýr eru fylgjudýr. Fóstur þeirra fá næringu frá líkama móðurinnar gegnum fylgju sem þau þroskast í. Hesturinn er hófdýr og tilheyrir hestaætt (Equidae).

Ætt hesta er talin hafa þróast frá skepnu sem uppi var fyrir um 50 milljónum ára, þ.e í upphafi Nýlífsaldar. Hún hefur verið nefnd árhestur (Eohyppus). Hestaættinni tilheyrir ein ættkvísl (Equus). Innan ættkvíslar hestsins eru taldar vera 7 tegundir  hesta, sex eru villtar og svo er hinn ræktaði hestur (Equus caballus) (Anna Guðrún Þórhallsdóttir og Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 105).

Forveri nútíma hesta
Árhesturinn var á stærð við lítinn hund, um 20 cm á hæð og 60 cm á lengd. Hann hafði fjórar tær á framfótum og þrjár á afturfótum (Anna Guðrún og Hrefna bls. 105). Upplýsingar um þennan forföður nútíma hesta byggja á steingerfingum er fundust á fyrri hluta 19. aldar í setlagi í Missisippidalnum í Bandaríkjunum. Með aldursgreiningu á setlaginu var hægt að ákvarða aldur árhestsins nokkurn veginn. Aðrir steingerfingar á þessum slóðum benda til að árhesturinn hafi lifað í hitabeltisloftslagi og gengið á mjúku og röku landi, en það útskýrir tilvist tánna (Erfðir og þróun bls. 52-55).

Frá árhestinum þróuðust fjölmargar ættkvíslir sem lifðu í milljónir ára um allt norðurhvel jarðar (Anna Guðrún Þórhallsdóttir og Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 105). Á löngum tíma höfðu ýmsar breytingar í náttúrulegu umhverfi afgerandi áhrif á lífsafkomu dýrsins og kölluðu á aðlögun þess. Í upphafi munu forverar nútíma hesta hafa nærst aðallega á kvistum og laufi. Í sömu heimild, segir svo (bls. 111):

Graslendi fer að breiðast út á míósen, fyrir um 18 milljónum ára. Fram að þeim tíma hafði rakt skóglendi verið ríkjandi en með þurrara loftslagi jókst hlutdeild grasa og graslendis.

Þar með fækkaði hestum sem voru sérhæfðir í kvist- og runnagróðri og þeir síðustu dóu út fyrir um 10 þúsund árum, í lok ísaldar (sama, bls. 111). Tegundum grasbíta fjölgaði. Táin í miðið (þriðja tá) stækkaði og varð að hófi en hinar tærnar minnkuðu og hurfu síðan enda var hesturinn farinn að dvelja á þurrari og harðari svæðum (Erfðir og þróun bls. 52-55).

Aðlögun meltingarfæranna
Grös innihalda mikið magn af sellulósa, en stór hluti orkunnar liggur í slíkum trefjum og hvati sem brýtur niður sellulósann þróaðist ekki hjá grasbítunum heldur komst á samlífi með örverum sem gátu brotið niður sellulósann. Meðal hesta þróaðist örverumeltingin í ristlinum. Örverurnar þurfa tíma til að brjóta niður trefjarnar og því lengri tími sem gefst til að melta, því meiri orka næst úr fæðunni. Því er mikilvægt að hægja á ferð trefjaríks fóðurs gegnum meltingarveginn. Ristill hestanna þróaðist þannig að í honum mynduðust pokar og fellingar sem héldu aftur af fóðrinu. Það hafði aðlögunargildi að hafa stóran ristil (Anna Guðrún Þórhallsdóttir og Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 111). Þessi aðlögun hestsins skipti miklu máli fyrir íslensku þjóðina löngu síðar.

Afskipti mannsins
Hesturinn hefur lengst af lifað villtur. Fyrstu not mannsins af hestum voru að veiða þá til matar. Ekki er með nákvæmni vitað hvenær menn fóru að nota hesta sem húsdýr. Þegar byrjað var að temja hesta er talið að menn hafi sótt sér villta hesta í stóð. Talið er að hesturinn hafi fyrst verið notaður til reiðar af Skíþíumönnum á steppum Suður- Rússlands um 3100 árum fyrir Krists burð og hestamennska hafi borist þaðan út um Evrópu næstu þúsund árin (Páll Hersteinsson, 2005 b, bls. 230). Menn fóru að nýta hesta við dagleg störf svo sem að draga og bera byrðar og til að komast leiðar sinnar. Hestar voru síðar mikið notaðir í bardögum t.d. til að draga stríðsvagna. Þeirra vægi í þróun veraldarsögunni er því mikið. Þannig lýsa Anna Guðrún Þórhallsdóttir og Hrefna Sigurjónsdóttir því (bls. 112):

Talið er að velgengni og útbreiðslu manna á steppum Evrópu og Asíu, svo og hina miklu útbreiðslu indó-evrópskra mála, megi fyrst og fremst þakka því að mönnum á svæðinu tókst að temja hestinn.

Um 3000 f. Kr. er vitað að greinilegur munur var á hestum eftir svæðum. Sem dæmi má nefna að í Norður-Evrópu voru hestar smærri en í Mið-Evrópu þar sem þeir voru stórir og þungir. Fyrir botni Miðjarðarhafsins voru hestar í meðallagi stórir og beinanettari en þeir í Mið- og Norður-Evrópu. Þessi einkenni eru þekkt nú til dags (Páll Hersteinsson, 2005 a, bls 52-53).

Heimildir:

Anna Guðrún Þórhallsdóttir. Hrefna Sigurjónsdóttir. (2005). Hestar og skyldar tegundir. Uppruni, þróun og atferli. Náttúrufræðingurinnn, 73. árg. 

Erfðir og þróun. (2001). Ritstj. Hafdís Finnbogadóttir. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Gísli B. Björnsson. Hjalti Jón Sveinsson. (2006). Íslenski hesturinn. Reykjavík: Mál og menning.

Háskóli Íslands. (2008). Vísindavefurinn. Sótt 17. 09. 2008 af http://visindavefur.is/svar.php?id=4630

Helgi Sigurðsson. (1994). Umhverfi, meðferð og heilsufar hrossa. Sótt 18. 09. 2008 af http:www.landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/printview/9437df243f29c4f500

Íslenska alfræðiorðabókin. A-Ö. (1992). Ritstj. Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Reykjavík: Örn og Örlygur h.f.

Lifandi veröld. (2000). Ritstj. Hafdís Finnbogadóttir. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Páll Hersteinsson. (2005 a). Ættbálkar spendýra. Í: Íslensk spendýr. Ritstj. Páll Hersteinsson. Reykjavík: Vaka- Helgafell.

Páll Hersteinsson. (2005 b). Hestur. Í: Íslensk spendýr. Ritstj. Páll Hersteinsson. Reykjavík: Vaka- Helgafell.

Smithsonian National Museum of Natural History. (2008). Arctic fox. Alopex lagopus.
Sótt 23. 09. 2008 af http://www.mnh.si.edu/arctic/html/arctic_fox.html

Stefán Aðalsteinsson. (2001). Íslenski hesturinn – litir og erfðir. Reykjavík: Ormstunga.

Örnólfur Thorlacius (2004). Inngangur. Í: Darwin C.R. Uppruni tegundanna, fyrra bindi. Reykjavík: Hið íslenska bókamenntafélag.