Íslenski hesturinn

Hér er kafli um íslenska hestinn. Þessi kafli er hluti af verkefni sem unnið var haustið 2008 á námskeiðinu Náttúra Íslands við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kennari í þessum hluta námskeiðsins var Hrefna Sigurjónsdóttir. Höfundur: Ragnheiður Þorgrímsdóttir.


Um 400 hrossakyn eru skráð í heiminum. Íslenski hesturinn er eitt þeirra (Páll Hersteinsson, 2005 b, bls. 231). Hann er fremur smávaxinn og talinn harðger og ósérhlífinn. Það þykir frekar auðvelt að temja hann og hann er eftirsóttur reiðhestur enda hefur hann hina sjaldgæfu gangtegund tölt en það er fjórtakta hreyfing fótanna, þar sem aðeins einn fótur snertir jörð í einu. Til eru mörg litaafbrigði af íslenska hestinum. Fjöldi hrossa á Íslandi er nú um 80.000.

Íslenski hesturinn kom til hingað með mönnum er námu land á 9. öld. Sameindalíffræðilegar rannsóknir sýna að íslenski hesturinn er skyldastur Hjaltlandshestinum. En hann er líka skyldur norður-norska hestinum (Nordlandshest/ Lyngshest) og mongólska reiðhestinum, en þar er talið að hestar hafi verið tamdir um 2000 árum f. Kr. (Páll Hersteinsson, 2005 b, bls. 231). Það er athyglisvert að hann skuli ekki vera náskyldur norska Fjarðahestinum því langflestir landnámsmenn komu frá vesturströnd Noregs. En skýringarinnar getur verið að leita í því að Fjarðahesturinn var mikið blandaður öðrum hestakynjum á 19. öld til að gera hann stærri og þrekmeiri (Stefán Aðalsteinsson, bls. 19).

Engin önnur hestakyn eru á Íslandi nú og líklega hefur þetta kyn verið alveg einangrað frá öðrum hestakynjum frá því á landnámstímanum (Páll Hersteinsson, 2005 a, bls. 31).

Valkraftar að verki
Frá því er landið okkar byggðist og fram á miðja 20. öld var hesturinn notaður á margvíslegan hátt og af þeirri ástæðu oft kallaður þarfasti þjónninn. Án hans hefði búseta á Íslandi varla verið möguleg. Fólk ferðaðist á hestum um vegi og einkum þó vegleysur lengst af. Hestar gátu vaðið yfir ár þar sem menn komust ekki og jafnvel synt þar sem of djúpt var til að vaða. Hestar voru látnir bera hey af engjum og varning í og úr kaupstað, flytja póst á milli landshluta og voru svo auðvitað notaðir til útreiða á hjá þeim sem höfðu aðstæður til þess.

Í aldanna rás sköpuðu maður og náttúra rammann að aðlögun íslenska hestsins. Talið er að hann hafi lækkað um 10 cm eftir landnám (Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson, bls. 36). Það hefur hann unnið upp með síðari tíma ræktun. Fyrr á tímum var lítið um að hross væru teknir á hús yfir vetrartímann. Á mörgum bæjum var þeim alls ekki gefið þurrhey út á gaddinn og þau þurftu að bjarga sér sjálf með gras, vatn og skjól. (Reyndar eru til dæmi af slíkri meðferð á hrossum alveg fram á þennan dag en slíkt heyrir til undantekninga). Mörg hross þoldu ekki þessa meðferð en þorri þeirra lifði af og náði að aðlagast hinum kröppu kjörum. Náttúran gat verið hörð og óvægin og náttúruhamfarir hjuggu skarð í stofninn. Í Móðuharðindunum í kjölfar Skaftárelda árið 1783-85 féllu til dæmis um 77% af hrossum landsmanna (Íslenska alfræðiorðabókin, bls. 516). 

Í nýlegri rannsókn kom í ljós að aftari hluti meltingarfæranna, botnlangi og ristill virðast mun stærri og þróaðri í íslenska hestinum en í öðrum hestakynjum. Líklegt má telja að náttúruvalið hafi valdið þessu í aldanna rás, en hross þurftu jafnvel að lifa af sinu stóran hluta af árinu og vinna orku úr henni (Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson, bls. 40).

En íslensk hross hafa einnig aðlagast hörðum vetrum með því að safna fitu á haustin til að undirbúa sig fyrir veturinn. Einnig verður feldurinn loðnari. Þannig auka þau einangrun sína en það er háttur stórra spendýra til að aðlagast kulda (Helgi Sigurðsson).

sti bur eftir gjf.jpg - 25.58 KbÍslendingar hafa gripið inn í þróun íslenska hestsins á ýmsan hátt. Lífsbaráttan er orðin auðveldari fyrir hross, þau fá að jafnaði betra fóður nú á tímum og skylt er að gefa útigangshrossum hey að vetrinum og sjá um að þau hafi aðgang að skjóli og hreinu vatni. Menn hafa áttað sig á að ræktun reiðhesta skilaði ekki árangri nema aðbúnaður hrossa batnaði, en hérlendis eru hestar nánast eingöngu notaðir til útreiða nú. Viðbrögð útigangshrossa við góðri heygjöf að vetri geta verið að þau fara úr hárum talsvert fyrr á vorin. Sé tíðarfar gott að má búast við að þau byrji að fara úr hárum í febrúar/mars. Einnig geta hryssurnar orðið frjóar snemma á vorin.

 
Útigangshross bíða eftir heyi.  Mynd: Ragnheiður Þorgrímsdóttir


Ræktun íslenska hestsins
Góðir hestar hafa um löngum verið eftirsóttir til eignar og afnota. En hvað er góður hestur og hvernig hafa hugmyndir um góðan hest haft áhrif á þróun hans? Skipulögð ræktun íslenska hestsins hófst í byrjun 20. aldar. Frumkvæði einstaklinga hefur sett mikinn svip á hana. Oft hefur verið tekist á um markmið í hrossarækt. Á síðustu öld munaði litlu að lipra og gangþýða hestinum væri fórnað fyrir þungbyggðari dráttarhest. Það var fyrir tíma vélvæðingar í landbúnaði. Slíkum ræktunarhugmyndum hefur fyrir löngu verið kastað fyrir róða. Og fleira hefur gerst. Nú vill enginn lengur reiðhest með vaxtarlagi eins og flest hross höfðu fram á 20. öld; lágfætt, bolmikil, hálsinn lágt settur og fremur óprúð á fax og tagl. Í opinberum ræktunarmarkmiðum fyrir íslenska hestinn er aðaláherslan á góða byggingu og eðliskosti svo sem gott lundarfar, gangrými og mýkt.

Almennt er talið að ræktun íslenska hestsins undanfarna áratugi hafi skilað tilætluðum árangri. Hestar eru léttbyggðari nú en áður, hávaxnari, með fallegri frambyggingu, betra lundarfar, meiri ganghæfni og mýkt í hreyfingum. Litaauðgi hrossa á Íslandi hefur haldist að mestu. Rauð hross hafa alltaf verið mörg, um þriðjungur stofnsins, en brúnum og jörpum hrossum hefur fjölgað hlutfallslega meðan gráum hefur fækkað (Stefán, bls. 26-27). Það virðst ekki taka langan tíma að rækta liti hjá hrossum. Vinsælir stóðhestar geta haft mikil áhrif svo sem hinn bleikálótti Ófeigur frá Flugumýri og hinn brúni Hrafn frá Holtsmúla eru dæmi um og ekki má gleyma hlut Orra frá Þúfu í ræktuninni, en hann er brúnn.

r garinum.jpg - 67.35 Kb 
Gott geðslag er eitt af ræktunarmarkmiðum fyrir íslenska hestinn. Mynd: R.Þ.

 

 

 

 

 

Samskipti hesta
Breyttar áherslur varðandi notagildi hestsins hafa haft áhrif á þróun hans bæði hvað snertir útlit og eðliskosti. En hvað með samskipti hesta innbyrðis? Vitað er að hestar eru félagsverur og hafa flókið samskiptakerfi sem hefur í aldanna rás verið þeim nauðsynlegt til að geta komist af. Skyldi þetta hafa breyst fyrir tilhlutan mannsins? Linklater og fleiri fræðimenn telja að þrátt fyrir að hesturinn hafi verið húsdýr í nokkur þúsund ár þá hafi hann ekki tapað neinu af þeim einkennum sem nauðsynleg eru til að komast af í náttúrunni (Anna Guðrún Þórhallsdóttir og Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 114).

Dæmi um félagslega hegðun sem haldist hefur þrátt fyrir að hesturinn sé húsdýr er virðingarröðin. Hún skapar nauðsynlegan stöðugleika hjá stóðinu. Allir hafa sinn stað í virðingarröðinni, en röðunin sjálf getur breyst með hækkandi aldri hrossanna. Sterk virðingarröð hefur örugglega haft aðlögunargildi fyrir hestinn í tímans rás. Það er mikilvægt að þekkja þetta atriði þegar verið er að temja hesta vegna þess að þá þarf maðurinn að öðlast virðingu hestsins, verða ofar en hann í virðingarröðinni. Það gerir starf tamningamannsins auðveldara að þekkja þessa aðlögun. Reyndir tamningamenn vita að þeir komast hvorki lönd né strönd með hestinn nema kunna grundvallaratriði í hrossasálfræði.

Þeir sem gefa útigangshrossum að vetri til sjá virðingarröðina glöggt. Þegar heyið er komið á staðinn þá fara þeir sem ofarlega eru í röðinni strax að fóðrinu og halda sig þar óáreittir, meðan aðrir stjákla í kring og reyna að smeygja sér með ýmsum leiðum að tuggunni. Þeir sem eru lífsleiknir láta fara lítið fyrir sér í þessum tilraunum en þeir lægra settu sem fara mikinn og ætla að taka pláss með áhlaupi eru strax reknir í burtu. Svo kemur maðurinn með réttlætiskenndina og vill fara að skakka leikinn, skammar jafnvel þá sem honum finnst vera óhóflega frekir, en allt kemur fyrir ekki. Hann breytir ekki þessari röð með sinni jafnaðarstefnu. Hann verður að skipta hrossunum niður í fleiri afgirt hólf ef hann ætlar láta alla fá jafnt. Þá er hann búinn að grípa inn í virðingarröðina. Það hafa menn auðvitað gert margoft gegnum tíðina. Samt er hún til staðar hjá hestinum.

Hross eru veðurglögg og búa sig með góðum fyrirvara undir slæmt veður (Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson, bls. 41). Þegar þau eru komin í þennan ham getur verið erfitt að fá þau til að hreyfa sig, jafnvel að koma þeim í skjól. Það er engu líkara en þau loki sig af. Þegar hestar standa á streng til að mynda skjól í slæmum veðrum má sjá virðingarröðina innan hópsins. Þá standa þeir sem eru lægra settir utan við miðju og þeir lægst settu taka á sig versta veðrið. Ég hef horft á þetta undanfarið í hrossahópnum hjá mér. Ég á veturgamlan fola sem er mjög sérstakur á margan hátt, sjálfstæður og duglegur að bjarga sér. Hann á fullorðna vini í hópi geldinganna og leikur sér við þá. En þegar þeir félagarnir standa af sér veður þá smellur hann inn í lægsta þrep virðingarstigans og tekur á sig veðrið fyrir þá stóru.

Það er manninum nauðsynlegt að skilja flóttaviðbrögð hesta. Hesturinn sem lifði á gresjum þurfti að aðlagast því að forða sér frá rándýrum því vissulega hefur hann verið auðveld bráð. Þannig eru flóttaviðbrögð hans eðlislæg þegar óþekktar aðstæður og að hans mati hættulegar koma upp. Hesturinn er „dýrið sem hverfur“ ef hættu ber að. Hann þarf tíma til að læra á nýjar aðstæður.
 
Af þessu má álykta að  ræktun mannsins geti breytt útliti hesta og lundarfari með vali. Þegar kemur að félagslegum samskiptum hrossa og viðbrögðum sem eru þeim eðlislæg þá er óhjákvæmilegt að nálgast hestinn á hans eigin forsendum.

 

Heimildir

Anna Guðrún Þórhallsdóttir. Hrefna Sigurjónsdóttir. (2005). Hestar og skyldar tegundir. Uppruni, þróun og atferli. Náttúrufræðingurinnn, 73. árg. 

Erfðir og þróun. (2001). Ritstj. Hafdís Finnbogadóttir. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Gísli B. Björnsson. Hjalti Jón Sveinsson. (2006). Íslenski hesturinn. Reykjavík: Mál og menning.

Háskóli Íslands. (2008). Vísindavefurinn. Sótt 17. 09. 2008 af http://visindavefur.is/svar.php?id=4630

Helgi Sigurðsson. (1994). Umhverfi, meðferð og heilsufar hrossa. Sótt 18. 09. 2008 af http:www.landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/printview/9437df243f29c4f500

Íslenska alfræðiorðabókin. A-Ö. (1992). Ritstj. Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Reykjavík: Örn og Örlygur h.f.

Lifandi veröld. (2000). Ritstj. Hafdís Finnbogadóttir. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Páll Hersteinsson. (2005 a). Ættbálkar spendýra. Í: Íslensk spendýr. Ritstj. Páll Hersteinsson. Reykjavík: Vaka- Helgafell.

Páll Hersteinsson. (2005 b). Hestur. Í: Íslensk spendýr. Ritstj. Páll Hersteinsson. Reykjavík: Vaka- Helgafell.

Smithsonian National Museum of Natural History. (2008). Arctic fox. Alopex lagopus.
Sótt 23. 09. 2008 af http://www.mnh.si.edu/arctic/html/arctic_fox.html

Stefán Aðalsteinsson. (2001). Íslenski hesturinn – litir og erfðir. Reykjavík: Ormstunga.

Örnólfur Thorlacius (2004). Inngangur. Í: Darwin C.R. Uppruni tegundanna, fyrra bindi. Reykjavík: Hið íslenska bókamenntafélag.