Um heilsufar hrossa á Kúludalsá
Hugurinn ber mig hálfa leið, - hitt er bara vinna.
Hörður Torfa.

Eftirfarandi greinargerð er unnin af Ragnheiði Þorgrímsdóttur ábúanda á Kúludalsá við Hvalfjörð. Fjallað er um veikindi hrossanna á Kúludalsá frá vorinu 2007, hvernig reynt var að hlynna að þeim og svo leitina að skýringum á heilsubresti þeirra. Stiklað verður á stóru varðandi veikindin, sagt frá aðkomu dýralækna, samskiptum við forsvarsmenn Norðuráls og sambandi við stjórnvöld, þ.m.t. opinberar eftirlitsstofnanir, en bærinn Kúludalsá liggur rúmlega 4 km. vestan við álver Norðuráls, á Grundartanga við Hvalfjörð. Álverið á Grundartanga getur framleitt um 300.000 tonn af áli árlega og hefur leyfi til að sleppa að minnsta kosti 150 tonnum af flúori út í andrúmsloftið. Austanáttir eru ríkjandi vindáttir á svæðinu, einkum á þurrkatímum og undanafarin fimm sumur hafa verið óvenju þurr.

Áður fyrr var stundaður blandaður búskapur á Kúludalsá. Hross voru alltaf haldin á bænum og það þótti eftirsóknarvert að eiga góða reiðhesta. Allar götur fram til vorsins 2007 var heilsa hrossa á Kúludalsá með ágætum. Það þekktist einfaldlega ekki að hross veiktust. Allt breyttist
þetta vorið 2007 og hefur áföllum ekki linnt síðan þó þau hafi verið misþung í veikindasögu hrossanna. 

Fyrsta hrossið sem veiktist var Garri
IS1996135303, rauður 11 vetra klár. Hann varð mjög stirður í hreyfingum, gat sig nánast ekki hreyft. Dýralæknir á svæðinu, Hildur Edda Þórarinsdóttir, var kölluð til hestsins, en Gunnar Gauti Gunnarsson eftirlitsdýralæknir var í leyfi frá störfum vegna veikinda. Hvorki lyf (finadyne, suacron) né önnur meðferð Hildar Eddu dugðu og var klárinn felldur mánuði síðar, en þá voru komin á hann legusár og ekki stætt á því að halda honum lengur á lífi þar sem ekki virtist batavon. Skömmu síðar, í júlí, veiktist Sunna IS1992235300, 15 vetra jörp hryssa. Sömu einkenni voru á hennar veikindum, nema að henni leið mun verr en Garra og hún varð strax mjög bólgin um allan skrokkinn, einkum á herðakömbum og gat ekki staðið. Sunna fékk lyf (finadyne, suacron, einnig depomicine og romefen) hjá sama dýralækni en án árangurs.

Um þetta leyti hitti ég Margréti Báru Jósefsdóttur ljósmóður og bowen tækni á Akranesi og sagði henni frá veikindum hrossanna. Þegar þetta gerðist hafði Sunna veikst og bauðst Bára til að koma og líta á hana. Hjá Báru fékk Sunna óhefðbundna lækningu (bowen tækni o.fl.) sem hjálpaði henni á fætur þannig að hún gat fljótlega farið að bjarga sér. Síðan veiktist Sókn
IS1997235302, 10 vetra grá hryssa. Hún varð ekki alvarlega veik, en átti erfitt með gang um tíma, en liðkaðist síðan nokkuð. Veikindin uppgötvuðust ekki strax og þá gagna lyf ekki að sögn dýralækna (þau lyf sem hrossin fengu gerðu reyndar aldrei gagn). Hófar Sóknar afmynduðust jafnvel þó reynt væri að klippa þá og snyrta. Næst veiktist Elja IS1986235301, 21 vetra grá hryssa og mikill skörungur.

elja  g. 2008.jpg - 47.30 KbElja fékk lyf hjá dýralækninum en þau breyttu ekki ástandinu til batnaðar. Elja varð ekki eins lasin og Sunna, gat t.d.alltaf gengið um en fékk þykkan, kúptan makka og bólgur á skrokkinn og það rann úr augum hennar. Sjá mynd. Hófar hennar afmynduðust ekki.

Engar aðrar myndir en þessi voru teknar af veiku hrossunum 2007 og 2008. Stafar það sennilega af þreytu því það var mikið verk að sinna þeim. Þessi mynd var tekin í ágúst 2008 vegna nýfædds folalds sem var aðal myndefnið. Seinna var farið að festa útlit veiku hrossanna á mynd.

Skömmu eftir að veikinda varð vart hjá Elju 2007, veiktist Spóla
IS1987235301, 20 vetra gömul dugnaðarhryssa. Hún veiktist mjög snögglega, lagðist strax á hliðina og gat ekki staðið upp. Lyfjagjöf bar ekki árangur. Aftur kom bowen tækni Báru til sögunnar og Spóla komst á fætur. Hún komst til þokkalegar heilsu en náði sér aldrei að fullu. Það var erfitt að halda á henni holdum þó hún hefði nægjanlegt og gott fóður allan ársins hring.

Þó dýralæknirinn virtist ráðþrota vegna veikinda hrossanna sumarið 2007, vildi hún þó ekki beita sér fyrir rannsóknum á veikindunum og vísaði á dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun (MAST) Dr. Sigríði Björnsdóttur. Í samtali við mig í júlí 2007 sagði Sigríður að þar sem ekki væri um smitsjúkdóm að ræða myndi MAST ekki skipta sér af málinu.

Tvær hryssur, Sunna
IS1992235300 og Spóla IS1987235301 fengu svokallaða óhefðbundna lækningu hjá Báru Jósefsdóttur. Komust þær báðar á fætur og til þokkalegrar heilsu en hafa nú verið felldar.  Hvorug þeirra náði sér eftir veikindin. Sunna var t.d. alltaf bólgin á herðakömbum. Hófarnir höfðu aflagast og þurfti að snyrta þá mun oftar en venja er. Heilsa hennar var breytileg. Ef henni versnaði kom Bára og hjálpaði henni með óhefðbundnum lækningaaðferðum. Hún notaði einnig olíur og nudd á bólguna sem hrjáði Sunnu, einkum á herðum, í baki og afturhluta. Sunna var felld og krufin í október 2012. Sýni úr lifur, milta og fitu voru send í flúormælingu hjá vottaðri rannsóknastofu erlendis og beinsýni send Nýsköpunarmiðstöð til mælinga. Einnig var mældur brennisteinn (SO2) í lifur.

Spóla lifði fram á sumarið 2012. Þó reynt hafi verið að halda að henni fóðri eftir veikindin, var hún verulega holdrýr. Hún var felld og krufin í ágúst 2012. Sýni voru tekin og nokkur þeirra send í mælingu hjá vottaðri rannsóknastofu erlendis. Meðal annars var mælt flúor í sýni úr vöðva (kjöti).

Hin hrossin sem veiktust 2007 voru felld. Fyrsta hrossið, Garri, var felldur í byrjun júlí 2007 sem fyrr segir, en hin voru felld haustið 2008. Mælt var flúor í beinsýnum fyrir tilstilli Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis. Sjá yfirlit yfir mælingar flúors í beinsýnum (fylgiskjal 1) Sjá http://www.namshestar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=191&Itemid=165&lang=is.
Mælingar á sýnum úr líffærum eða kjöti voru ekki gerðar enda beindist athyglin að tönnum og beinum á þessum tíma þar sem dýralæknar og aðrir málsmetandi menn töluðu ævinlega um skaðleg áhrif flúors á tennur og bein.

Allt frá því veikindanna varð vart 2007, grunaði mig að eitthvað mjög alvarlegt væri að gerast. Í leit að orsökum beindist athyglin mín fyrst inn á við, að aðstæðum hrossanna hér á bænum. En hversu vandlega sem málið var skoðað gátu hvorki ég né aðrir fundið að neitt hefði breyst frá því sem fyrr var, þ.e. meðan allt var í lagi. Þess ber að geta að skýrslur búfjáreftirlitsmanna eru allar mjög jákvæðar. Síðan beindist athyglin út á við. Skoðað var hvað hefði hugsanlega breyst í ytra umhverfi. Ekkert hafði breyst annað en að ný verksmiðja hafði bæst við á Grundartanga, álverið. Ég fór að lesa mér til um starfsemi álversins, hversu mjög það hafði stækkað frá því það hóf starfsemi, um mengandi efni svo sem flúor, um þynningarsvæði, umhverfisvöktun, umhverfisslysið 2006 og annað sem ég fann áhugavert. Lengi skorti hlekkinn sem tengdi hið baneitraða efni flúor við sjúkdómseinkenni hrossanna. 

Sjúkdómseinkenni hrossanna eru einkum bólgur á skrokki, á makka sem verður þykkur, stífur og jafnvel kúptur og bólgur á bógum, lendum og höfði. Einkennin virðast hvorki tengjast holdafari né aldri hrossanna. Makkinn getur orðið svo stífur að hrossin eiga erfitt með að horfa aftur með skrokknum og geta ekki borið sig eins og reiðhestar. Sum hafa orðið svo stirð í hreyfingum og bólgin á skrokk og haus að þurft hefur að fella þau.
Hófar hafa aflagast á sumum hrossanna. Einnig hefur orðið vart við útbrot á skrokkum nokkurra. Tannbeinseyðing (tannhrun), tannskemmdir og gaddur komu í ljós er Sunna, Spóla og Litla-Glóð voru felldar. Skemmdir í glerungi tanna má einnig finna. Greinilegasta dæmið á lifandi hrossi er Starkaður, 8 vetra klár. Kolbrá sem felld var og krufin í byrjun ágúst reyndist vera með krabbamein í milta. Geðrænna breytinga til hins verra hefur orðið vart, meira að segja hjá 20 vetra reiðhesti (ferðahesti) mínum. Hann hefur alltaf verið örgeðja en það hefur versnað til muna. Undir eðlilegum kringumstæðum róast hross með aldrinum.

Það var ekki fyrr en ég las um veik hross í Pagosa Springs í Colorado í Bandaríkjunum að ég fór að átta mig á samhenginu. Hrossin í Colorado höfðu fengið "flúorbætt" drykkjarvatn um nokkurra ára skeið með þeim afleiðingum að þau urðu veik og nokkur þeirra þurfti að fella. Sjúkdómseinkennin lýstu sér á margan hátt svipað og í mínum hrossum. Fremur en að endursegja söguna vísa ég á vefinn. Nóg er að biðja leitarvélina að finna: poisoned horses + cathy justus. Svo er hægt að finna margt fleira um þetta efni á vefnum. Enn er ég að undrast að langskólagengið fólk á Íslandi (og reyndar víðar) skuli halda að flúor fari beint í tennur og bein, að það geri engan sérstakan skaða á leiðinni um líkamann. Það er þó marg sannað að svo er. Meira um það síðar.

Eftir sumarið 2007 hafa fleiri hross veikst þannig að þurft hefur að fella þau. Sem dæmi má taka öðlingshryssuna Litlu-Glóð, IS1997235303, en heilsu hennar hnignaði á útmánuðum 2010. Sjúkdómseinkennin líktust þeim sem einkenndu Sunnu og fleiri hross. Þegar hún var felld og krufin í mars 2012 tók ég meðal annars þessa mynd af jöxlum hennar. Sjá má eyðingu jaxla í báðum gómum og glerungsbrodda sem skaga upp. Því miður gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu ástand tanna hennar var orðið alvarlegt. Sama má ætla að eigi við um Dr. Sigríði Björnsdóttur sérfræðing í hrossasjúkdómum sem skoðaði upp í hryssuna í ágúst 2011 og hafði ekkert við tennur hryssunar að athuga.

jaxlar litlu-glar.jpg - 344.31 KbÖll ytri einkenni veikinda á hrossunum eru meira áberandi yfir sumartímann þegar gróður er sterkur. Sumarið 2011 var mjög erfitt, enda mjög þurrt og heitt og vindur oft austanstæður.  Hrossin sýndu flest einhver einkenni þykknunar í makka, sum voru með útbrot, sum voru stirð og reiðhrossin mín á besta aldri, góð og vel ættuð, voru líka komin með einkennin. Ég fékk Hjalta Viðarsson dýralækni sem var þá starfandi héraðsdýralæknir, til að gefa álit sitt. Skoðaði hann flest hrossin á bænum. Þau voru á aldrinum þriggja til tuttugu og fimm vetra gömul. Þau voru í mismikilli brúkun, sum hrossin voru í notkun allt sumarið vegna námskeiðahalds og útreiða, önnur voru minna notuð eða ekkert. Holdafarið var mismunandi. Niðurstöðu Hjalta Viðarssonar má lesa í fylgiskjali 2.

Sumarið 2011 hafði ég enn samband við dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun Dr. Sigríði Björnsdóttur og leitaði ráða hjá henni vegna ástands hrossanna. Vildi ég að stofnunin fylgdist með, þar sem yfirdýralæknir hafði loksins fallist á að láta rannsaka veikindin. Dýralæknir hrossasjúkdóma ráðlagði að gefa hrossunum gróft, gamalt hey og láta þau sem minnst koma nærri grænum gróðri. Einnig að hreyfa þau sem mest. Reynt var til hins ítrasta að fara eftir þessum ráðum, en það var mjög erfitt. Að hafa hóp af hrossum á mölinni um hásumar kallar á ósætti og slys. Í tvígang þurfti að kalla til dýralækni til að sauma sár. Sem betur fer fékk ég góða hjálp þetta sumar og við komumst í gegnum þessa erfiðleika. Svo kom haustið blessunarlega, með sífellt daufari gróður.

Sumarið 2012 var hrossunum
beitt á rýra haga og útjörð eftir því sem hægt er. Heimahrossin hafa fengið rúlluhey ásamt mjög takmarkaðri beit. En það má glöggt sjá að óheillaþróunin heldur áfram. Þykknun í makka er enn greinilegri en fyrr á hrossunum. Einnig er komin rönd í hófbotn milli kviku og hófveggjar á mörgum hrossum, þó þau hafi ekki veikst svo séð verði. Það er þó lán í óláni að veður hefur verið stillt í sumar og oft hefur blásið úr vestri, en það eru gleðitíðindi hér á bæ núorðið. 

Síðastliðið ár (frá okt. 2011 til ágúst 2012) hafa fjögur hross verið krufin af dýralækni  og lífsýni send í flúormælingu til vottaðra rannsóknarstofa erlendis. Auk sýna úr Sunnu IS1992235300 og Spólu IS1987235301 hafa verið flúormæld lífsýni úr Litlu-Glóð IS1997235303 og Kolbrá IS1986235300. Þetta var gert að mínu frumkvæði enda hafði ég þá endanlega glatað trausti á starfsháttum UST og MAST.

Það er talsverð ábyrgð fólgin í því að hafa mikilvægar niðurstöður mælinga undir höndum. Ég hef ekki greint opinberlega frá þeim enn sem komið er, en fékk loks, eftir hálfs árs bið, fund með umhverfisráðherra,
Svandísi Svavarsdóttur, þann 6. sept. s.l. Greindi ég henni frá niðurstöðum mælinganna og sagði henni að ég væri komin á hennar fund til að skilja að minnsta kosti nokkurn hluta ábyrgðarinnar eftir. Ég hef auk þess leitað mjög ákveðið eftir fundi með landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni en hann hefur ekki gefið færi á fundi. Ef til vill ætti ég einnig að ganga á fund sveitarstjóra og oddvita Hvalfjarðarsveitar en eftir ítrekaðar frávísanir þeirra á erindum frá mér sýnist það nokkuð tilgangslítið.


Þó niðurstöður mælinganna séu ekki formlega kynntar hér er óhætt að segja að samkvæmt þeim voru afurðir hrossanna ekki hæfar til manneldis. Sem dæmi má taka bæði lifur og kjöt, en hefði manneskja neytt 250 gr. hefði hún innbyrt margfalt meira flúor en leyfilegt er skv. stöðlum EPA (U.S. Environmental Protection Agency).

Hvernig lítur framtíðin út? Sumarið 2012 var ekki heyjað svo neinu nam á Kúludalsá, heldur var keypt hey handa hrossunum. Mælingar (sem ég hef látið gera) sýna umtalsvert magn flúors í heyi og grasi. Enda þótt flúormagnið teljist ekki vera yfir svokölluðum hættumörkum, er það nógu mikið til að viðhalda flúori í skrokk hrossanna. Éti hrossin flúormengað gras að sumrinu og flúormengað hey yfir veturinn ná þau aldrei að lifa flúorlausa stund allan ársins hring, jafnvel allt sitt líf.

Getur hugsast að slík meðferð á dýrum falli undir ákvæði laga um dýravernd? Í II. kafla laga nr. 15/1994, 2. og 3. gr. er ákvæði um að skylt sé að fara vel með öll dýr og að eigendum eða umráðamönnum dýra beri að sjá þeim fyrir viðunandi vistarverum og fullnægjandi fóðri, drykk og umhirðu. Mér ber lagaleg skylda til að standa vörð um velferð dýranna minna og það hef ég reynt að gera eftir bestu getu. Þegar utanaðkomandi vá, svo sem mengandi efni í andrúmslofti, eru til staðar getur verið erfitt að halda hlífiskildi yfir dýrunum, einkum ef þöggun ríkir allt í kring um mengunarvaldinn og afleiðingar mengunarinnar. Hvað á bóndinn þá að taka til bragðs til að verja dýrin sín?

Ég hef barist fyrir ítarlegum rannsóknum á hrossunum og umhverfi þeirra í nokkur ár.  Að endingu þurfti ég að taka málið í mínar hendur. Eftir að niðurstöður nokkurra mælinga á lífsýnum lágu fyrir, mælinga sem hvorki Umhverfisstofnun né Matvælastofnun vildu láta gera, tel ég sterk rök fyrir því að hrossin séu haldin efnaskiptasjúkdómi (efnaskiptaröskun, equine metabolic syndrome) er stafar af of miklu flúori í grasi og heyi. Auk þess að valda kalkskorti í blóði og skemma tennur og bein hefur flúor einnig áhrif á starfsemi skjaldkirtils en hann stjórnar efnaskiptum líkamans. Einnig eyðir flúor magnesíum og fleiri nauðsynlegum efnum úr líkamanum.

Í mörg ár og allan ársins hring hafa hrossin á Kúludalsá þurft að éta gras og hey sem er flúormengað. Auk hins „venjulega“ útblásturs átti sér stað mengunarslys í álverinu í ágúst 2006, en frá því var ekki sagt fyrr en mörgum mánuðum síðar og því engin leið að forða búpeningi frá eitrinu. Einnig var mikið áreiti flúors samfara stækkun álversins 2006 og 2007.

Á það skal minnt að í
starfsleyfi Norðuráls er gert er ráð fyrir því að unnt sé að stunda hefðbundinn búskap utan þynningarsvæða verksmiðjunnar fyrir flúor og brennistein. Getur hugsast að starfsfólk opinberra eftirlitsstofnana þekki ekki hefðbundinn búskap á Íslandi, t.d. vetrarbeit og sé því ekki fært um að skilja mikilvægi verndunar loftgæða allan ársins hring?

Framtíðina vil ég sjá þannig að unnt verði að stunda búskap við Hvalfjörð, enda er svæðið skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Landnytjar eru um allan Hvalfjörð og
mikið framleitt af matvælum. Enginn veit raunverulega dreifingu flúors um svæðið. Enginn veit hvort áhrifa þess gætir í matvælum þannig að hætta stafi af. Aðeins bóndinn á Kúludalsá hefur látið mæla flúor í sínu búfé og þær mælingar gilda aðeins fyrir þann bæ.

Ég vil gjarnan nefna hrossin sem þurft hefur að fella vegna veikindanna. Sum þeirra voru algjörar hetjur í veikindabaslinu. Flest þeirra lögðu til mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nota við áframhaldandi þekkingarleit á áhrifum flúors á búfénað. Öll eiga þau skilið fyllstu virðingu.

Garri IS1996135303, felldur 2007

Elja IS1986235301, felld 2008

Sókn IS1997235302, felld 2008

Hrönn IS2001235301, felld 2009

Gola IS1996235300 felld 2011*

Sómi IS1996135300, felldur 2011*

Brynja IS2001235302, felld 2011*

Sprettur IS1989135303, felldur 2011

Sunna IS1992235300, felld 2011

Litla-Glóð IS1997235303, felld 2012

Spóla IS1987235301, felld 2012

Kolbrá IS1986235300, felld 2012)

(* hrossin þrjú sem MAST fékk til rannsókna 2011).


Nábýli við álver

Skammt austan við Kúludalsá starfar álver Norðuráls á Grundartanga. Framleiðslugeta álversins hefur verið aukin nær fimmfalt frá því það tók til starfa árið 1998, þ.e. úr 60.000 tonnum í allt að 300.000 tonna ársframleiðslu. Eftir síðustu stækkun árið 2007 má álverið samkvæmt starfsleyfi losa amk. 150 tonn af flúori út í andrúmsloftið árlega. Umhverfisstofnun hefur ekki talið þörf á að stækka skilgreint þynningarsvæði vegna flúors.
Forsvarsmenn iðjuveranna á Grundartanga, Elkem Ísland og Norðuráls skipuleggja umhverfisvöktun vegna mengunar frá fyrirtækjum sínum, en Umhverfisstofnun þarf að samþykkja áætlun þar að lútandi. Forsvarsmenn iðjuveranna ráða aðila til að sinna umhverfisvöktuninni, greiða þeim laun og skila árlega skýrslu til UST um vöktunina. UST fær greitt fyrir sitt eftirlitshlutverk, að minnsta kosti að hluta til fær UST greiðslur beint frá Norðuráli. Stóriðjan er lykilaðili í umhverfisvöktun vegna eigin mengunar.

Í núgildandi vöktunaráætlun er ýmislegt athugavert að finna, meðal annars það að ekki skuli gert ráð fyrir flúormælingum yfir vetrartímann, frá október til apríl. Flúor í andrúmslofti er einungis mældur yfir gróðrartímann! Engin greinargóð svör hafa fengist við spurningum varðandi þetta. Og þrátt fyrir athugasemdir aðila svo sem Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð hefur þessu ekki fengist breytt. Umhverfisstofnun stendur þannig með mengandi iðjuveri gegn búfjáreigendum á svæðinu. Þar sem svo mikið er í húfi fyrir bændur getur kostnaðurinn varla verið gild ástæða. Stefnan virðist sú að sem fæstar mælingar á mengandi efnum séu gerðar. Þannig verða upplýsingar um mengun ekki til og það skapar grundvöll til að draga enn frekar úr mengunarmælingum síðar.

Bændur sem eiga hross hafa sum þeirra á útigangi allan veturinn. Nautgripir eru einnig hafðir úti fram eftir hausti á sumum bæjum og sauðfé er á beit fram eftir hausti. Ekki má gleyma því að fólk er líka á ferðinni utan dyra á öllum árstímum og margir rækta grænmeti við heimili sín. Umhverfisstofnun kýs að leiða þessar staðreyndir hjá sér og hundsar óskir um mælingar á flúori í andrúmslofti allt árið, sem og fleiri mælingar sem lagt hefur verið til að væru gerðar, svo sem skipulegar mælingar á flúori í beinsýnum hrossa. Þess í stað hefur stofnunin samþykkt tillögu iðjuveranna um að þukla ákveðinn hóp hrossa árlega!

Losunarheimildir í starfsleyfi Norðuráls eru rúmar, og fræðilegur grundöllur þeirra mjög óöruggur. Norðurál hefur haft þann háttinn á að skýra frá losun mengandi efna í meðaltölum og löngu eftir að losunin á sér stað. Það er útilokað fyrir leikmann að átta sig á hvenær losun mengandi efna er mest og því geta bændur ekki verndað búpening á hættulegustu tímunum.

Erlendis hefur verið sýnt fram á að hross geta fengið króniska flúoreitrun þó uppsöfnun flúors í beinum sé ekki nema hluti af því sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun telja hættumörk. Í hvaða þekkingarbrunn sækja UST og MAST visku sína?

Í apríl 2009 sendi ég erindi til forsvarsmanna Norðuráls og Umhverfisstofnunar (dags. 6. apríl 2009, fylgiskjal 3) og greindi þeim frá áhyggjum mínum af flúormengun. Hafði ég þá grandskoðað allar aðstæður heima á bænum án þess að finna nokkuð sem gæti hafa breyst í aðbúnaði hrossanna og orsakað veikindin. Forsvarsmenn Norðuráls vildu ekki kannast við að hafa mengað meira en leyfilegt er samkvæmt starfsleyfi og buðust reyndar til að láta sína sérfræðinga rannsaka aðstæður hjá mér. Því boði tók ég að sjálfsögðu ekki, en þetta tilboð segir mikið um afstöðu forsvarsmanna álversins gagnvart nágrönnum sínum, og þá stöðu sem þeim hefur í raun verið leyft að taka sér í samfélaginu.

Skömmu eftir að erindið barst frá mér (fylgiskjal 3), hófu forsvarsmenn Norðuráls sína eigin rannsókn á grunngildum flúors í íslenskum hrossum. Samkvæmt upplýsingum frá
þáverandi yfirmanni umhverfismála hjá Norðuráli, Óskari Jónssyni, er rannsókninni ekki lokið og niðurstöður þeirra mælinga sem gerðar hafa ekki verið aðgengilegar. Spyrja má hvers vegna svo er.

Á sama tíma og Norðurálsmenn hófu sína eigin rannsókn á gildum flúors í beinsýnum íslenskra hrossa höfnuðu þeir alfarið að mæla á skipulegan hátt flúor í beinsýnum hrossa er verið hafa á beit í grennd við álver Norðuáls!

Þegar hryssan Sunna veiktist hastarlega haustið 2010 bauð ég Óskari Jónssyni
hjá Norðuráli að koma og skoða hrossið og taka með sér dýralækni, vegna þess að veikindi hennar voru svipuð og 2007. Hann þáði ekki boðið fyrir sitt leyti en sendi dýralækni, Vilhjálm Svansson til að líta á hryssuna. Vilhjálmur áttaði sig ekki á því hvað væri að hryssunni, en hún var mjög bólgin á baki og afturhluta, eins og í önnur skipti sem hún veiktist. Hann gaf henni bólgueyðandi lyf og kom síðan aftur og tók blóðsýni úr henni og tveimur öðrum hryssum sem voru með talsverð einkenni veikinnar óskilgreindu. Hann fann hátt gildi ensíma í öllum hryssunum, en á því geta verið ýmsar skýringar. Hann lauk ekki við athugun sína og komst ég að því síðar að Norðurál hafði ekki óskað eftir að hann kláraði, heldur sagt honum að fyrirtækið hygðist snúa sér að rannsóknastofunni á Hvanneyri. Frá þeirri rannsóknastofu hef ég ekkert heyrt. Aftur á móti kom Bára Jósefsdóttir og hjálpaði Sunnu út úr veikindunum enn einu sinni.

Forsvarsmenn Norðuráls hafa beðið um að vera látnir vita ef menn telja eitthvað athugavert við starfsemi iðjuversins. Það gerði ég þann 6. 4. 2009 en árangurinn hefur látið á sér standa. Það sem verra er, forsvarsmenn Norðuráls hafa ekki hikað við að beita ósannindum. Þeir hafa t.d. gefið út yfirlýsingu í fjölmiðlum um að „allir“ dýralæknar sem hafi komið til veiku hrossanna staðfesti að um hófsperru sé að ræða. Mér er ekki ljóst hvers vegna Norðurálsmönnum er svo mikill akkur í að sjúkdómurinn sé greindur sem hófsperra vegna þess að hófsperra getur átt sér svo margar orsakir. Þar að auki eiga mörg einkenni veikindanna ekkert skylt við hófsperru. Varðandi fréttaflutning Norðuráls hef ég ennfremur gert athugasemd við fullyrðingu um dýralækna, vegna þess að ég veit ekki hverjir „allir“ þessir dýralæknar eru sem um er talað í fréttinni. Ég hef spurt Norðurálsmenn en ekki fengið svar. Einu dýralæknarnir sem koma til greina eru Hildur Edda Þórarinsdóttir sem kom nokkrum sinnum sumarið 2007 en gat hvorki skilgreint veikindin né hjálpað hrossunum til bata og svo Vilhjálmur Svansson sem var stöðvaður í athugun sinni á hrossunum haustið 2010. Mér þykir miður að Norðurálsmenn skuli velja óheiðarlegan málflutning. Þannig verða þeir ekki verðugir andstæðingar. Verra er þó að yfirdýralæknir skuli hafa rétt þeim vopn í hendur með yfirlýsingu sinni frá vorinu 2012. Um það fjalla ég undir liðnum Matvælastofnun.


Samskipti við stjórnvöld

Umhverfisstofnun

Þann 6. apríl 2009 tilkynnti ég Umhverfisstofnun (UST), fyrstri íslenskra eftirlitsstofnana, með formlegum hætti um veikindi hrossa í grennd við athafnasvæði Norðuráls ehf á Grundartanga. Erindið var stílað á Kristínu Lindu Árnadóttur forstjóra (fylgiskjal 3).

Í erindinu segir meðal annars:

Jafnframt því sem ég tilkynni ykkur formlega um veikindi hrossanna á Kúludalsá lýsi ég því yfir að ég tel að orsakir þeirra séu mengun vegna flúors frá álveri Norðuráls ehf. á Grundartanga. Fer ég fram á að haldinn verði opinn fundur um málið, fundur þar sem fulltrúar Umhverfisstofnunar og fulltrúar Norðuráls ehf. koma, einnig dýralæknar sem komið hafa að málinu, fulltrúar sveitarstjórna Hvalfjarðarsveitar og Kjósarhrepps og aðrir sem áhuga hafa. Ég mælist til að fundurinn verði haldinn eigi síðar en föstudaginn 17. apríl næstkomandi.

Ég vek athygli á því að hagsmunir mínir varða ekki eingöngu missi hestanna sem veiktust, heldur snúast þeir um grundvöll atvinnustarfsemi minnar og þá einnig lífsafkomu. Því vænti ég þess að á málinu verði tekið af fyllstu fagmennsku og sanngirni.

Umhverfisstofnun brást ekki við með nokkrum hætti.

Skömmu síðar, þann 19. apríl 2009, sendi ég erindi til Matvælastofnunar (MAST), stílað á yfirdýralækni, Halldór Runólfsson og bað um rannsókn á veikindum hrossanna á Kúludalsá. Þar segi ég meðal annars:

Ég lít á beiðnina um opinbera rannsókn sem leið til að málið fái faglega og sanngjarna umfjöllun og er tilbúin að leggja óháðum rannsóknaraðilum öll gögn í hendur sem í mínu valdi er að afla varðandi veikindi hrossanna á Kúludalsá.

Með erindinu til MAST var beiðni um rannsókn á veikindum hrossanna komin í ferli innan opinberrar stjórnsýslu og var eftir það meðhöndluð á forsendum stjórnsýslunnar.

MAST framsendi erindið til Umhverfisstofnunar óbreytt þann 19. maí 2009. Af gefnu tilefni er hér lögð sérstök áhersla á að beiðni um rannsókn var ekki breytt í beiðni um athugun (það gerðist síðar, í umhverfisráðuneytinu). Lokaorð hins framsenda erindis eru:

Matvælastofnun telur í ljósi framangreinds að mál þetta heyri undir Umhverfisstofnun og framsendir erindið hér með ásamt fylgigögnum, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1993.

Fylgigögnin voru bréf til Norðuráls ehf. á Grundartanga dags. 6. og 19. apríl 2009 og bréf til Umhverfisstofnunar dags. 6. apríl 2009.

UST tók við erindinu athugasemdalaust. Stofnunin gerði enga athugasemd við viðfangsefnið, sem var að rannsaka tiltekið mál, né hvort hún hefði heimild til slíkrar rannsóknar. Stofnunin gerði enga athugasemd við að erindið þ.e. beiðni um rannsókn, væri borin fram af einstaklingi.

Þar sem UST sýndi engin viðbrögð við hinu framsenda erindi frá MAST, sendi ég stofnuninni bréf þann 7. sept. 2009. Þar segir meðal annars:

Engar upplýsingar eða fyrirspurnir hafa borist mér frá Umhverfisstofnun vegna málsins og leyfi ég mér því að spyrja í hvaða farvegi það sé innan stofnunarinnar. Sé rannsókn ekki þegar hafin á hinni meintu flúormengun er mikilvægt að hefja hana sem fyrst. Að óreyndu vil ég ekki trúa því að Umhverfisstofnun ætli að draga verkið á langinn.

Djúpt var á viðbrögðum UST. Níu mánuðum síðar, 8. og 9. júní 2010, bárust tvö tölvubréf frá Dr. Kristjáni Geirssyni deildarstjóra hjá UST. Í fyrra bréfinu segir hann:

Ég sendi þér því miður skammarlega seint þessa sendingu en þó er tilgangur hennar að óska eftir samstarfi og samvinnu við lausn á þínu erindi sem hefur dregist óhóflega að afgreiða. Miklar annir hafa því miður hægt mjög á verkinu en það er þó í vinnslu. Meginsök stofnunarinnar er að hafa ekki gert þéri fyllilega grein fyrir stöðu málsins, þrátt fyrir eftirgengni þinnar þar að lútandi. Sú málsmeðferð er mjög á skjön við þá stefnu sem stofnunin reynir að starfa eftir. Þetta mál er flókið og við vinnslu kom í ljós að þekking var mun minni en kannski var haldið og aðstæður á svæðinu bæta ekki úr.

Þann 11. júní 2010 kom Dr. Kristján Geirsson deildarstjóri hjá UST í heimsókn að Kúludalsá og spjallaði við heimamenn. Honum var boðið að skoða einkenni veikinda á nokkrum hrossum og þáði hann það enda þótt hann teldi sig ekki hafa vit á hrossum. Heimsóknin vakti spurningar um vinnubrögð UST og áherslur, því heimsókn sem þessi kostar fjármuni. Það sem á eftir kom hefur einnig og ekki síður vakið spurningar. Dr. Kristján Geirsson taldi að unnt yrði að ljúka málinu fyrir næsta haust. Haustið kom og veturinn einnig, en ekkert gerðist.

Í stjórnsýslukæru minni vegna bréfs UST dags. 19. maí 2011 er gerð grein fyrir framhaldi málsins. Allt frumkvæði að samskiptum við UST kom frá mér.

Þann 1. febrúar 2011 lagði ég enn fram erindi hjá UST þar sem ítrekaðar voru fyrri óskir um rannsóknir óhlutdrægra aðila á veikindum hrossanna.

Þann 1. mars 2011 átti ég bókað viðtal við Dr. Kristínu Lindu Árnadóttur forstjóra UST, aðstoðarforstjóra og Dr. Kristján Geirsson deildarstjóra. Fundurinn var afboðaður af hálfu stofnunarinnar en ég sendi forstjóranum meðfylgjandi tölvubréf daginn eftir. Þar er enn lögð áhersla á rannsóknir og segir þar meðal annars:

Það er mikilvægt að fara vel með fjármuni. Þess vegna tel ég miklu skipta að kosta til haldgóðra rannsókna á dýrunum sjálfum, jarðvegi og gróðri. Ef þær upplýsingar sem hægt er að afla með skrifborðsvinnu liggja ekki fyrir eftir næstum tveggja ára umfjöllun UST, á ekki að eyða meira púðri í þá leit. Hún mun ekki skila þeirri vitneskju sem dugar og við höfum ekki efni á henni.

Orðið „við“ í textanum vísar til íslensku þjóðarinnar.

Af textanum má sjá að enn bið ég um rannsóknir. Stjórnsýslustofnunin UST gerir enga athugasemd við það.

Svarbréf UST við beiðni minni um rannsókn á veikindum hrossanna barst 19. maí 2011. Ljóst er af efni bréfsins að stofnunin hyggst ekki láta umbeðnar rannsóknir fara fram og að um lokasvar við beiðni minni er að ræða. Ákvörðun UST og meðferð málsins var kærð með erindi til umhverfisráðuneytisins dags. 9. ágúst 2011. Kæran hefur ekki verið afgreidd, en ráðuneytið hefur lagt til að hanni verði vísað frá vegna þess að ég hafi farið fram á leiðbeiningar en ekki rannsókn! Niðurstaða UST um að rannsaka ekki veikindi hrossanna sé því ekki stjórnsýsluákvörðun og þar af leiðandi ekki kæranleg til æðra stjórnsýslustigs. Þeir sem lesa textann hér á undan geta svo metið sjálfir hvort ég hafi verið að biðja UST um eitthvað annað en rannsókn.

Umhverfisráðherra

Afrit af erindi til Umhverfisstofnunar var sent umhverfisráðherra 7. sept. 2009. Sendi ég einnig erindi 17. des 2009 og átti fund með umhverfisráðherra 17. mars 2010 og 6. sept 2012.

Þann 9. ágúst 2011 sendi ég stjórnsýslukæru til umhverfisráðherrra vegna vinnubragða UST (bréf UST dags. 19. maí 2011). Þar er bent á að stofnunin hafi sniðgengið góða stjórnsýsluhætti og gert sig seka um brot á Stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kært er brot á málshraðareglu 9. gr., brot á rannsóknarreglu 10. gr., brot á andmælareglu 13. gr. og að leiðbeiningarskyldu stjórnvalds hafi ekki verið sinnt samkvæmt 20. gr. Stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi kæra lá í ráðuneytinu í rúmt ár. Ég hafði samband við Umboðsmann Alþingis og athugasemd frá honum virðist hafa hreyft við ráðuneytinu sem hefur tekið kæruna fyrir og lagt til að henni verði vísað frá. Forsenda frávísunartillögunnar er sú að UST hafi ekki verið að taka stjórnsýsluákvörðun með því að hafna rannsókn. UST hafi verið að sinna leiðbeinandi starfi. Niðurstaða UST sé því ekki kæranleg til æðra stjórnsýslustigs. Ekki er ég sátt við að sögutúlkun umhverfisráðuneytisins. Sem kærandi hafði ég rétt til að gera athugasemdir fram til 15. sept. 2012 og hef skilað þeim inn til ráðherra. Athugasemdirnar má lesa í fylgiskjali 4 (á eftir að setja skjalið inn á vefinn).

Á árinu 2012 hef ég sent tvö opin bréf til umhverfisráðherra þar sem ég óska eftir að hún krefji yfirdýralækni svara um þolmörk hrossa og sauðfjár gagnvart flúori í líffærum. Ætla má að hann búi yfir þessari vitneskju þar sem hann gat ásamt sérfræðingum stofnunarinnar ákveðið að mæla ekki flúor í líffærum hrossanna.

Fyrra opna bréfið var sent áfram til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins „til þóknanlegrar meðferðar“ eins og segir í bréfinu. Síðara opna bréfinu hefur ekki verið svarað en ráðuneytisstjóri tjáði mér þann 12. júlí s.l. að hann hafi óskað eftir áliti UST á þessu erindi mínu. Ég sagði honum að mér þætti það undarleg málsmeðferð þar sem í ráðuneyti hans lægi frá mér stjórnsýslukæra vegna vinnubragða UST. Hann taldi sig ekki hafa heyrt um kæruna! 

Ég sótti fast að fá fund með umhverfisráðherra. Það tók u.þ.b. hálft ár að koma þeim fundi á og beiðnin þurfti stuðning frá Umboðsmanni Alþingis. Fundurinn var haldinn þann 6. september síðastliðinn. Ásamt umhverfisráðherra sátu ráðuneytisstjóri og lögfræðingur úr umhverfisráðuneytinu fundinn. Með mér voru dóttir mín Edda Kristrún sem er lögfræðingur og Árni Stefán Árnason lögfræðingur. Þar fjallaði ég um niðurstöður mælinganna og sýndi tölur um magn flúors. Ég sagði ráðherra að markmið mitt með fundinum væri að skilja nokkuð af ábyrgðinni eftir hjá henni. Afganginn af ábyrgðinni vildi ég flytja yfir á herðar landbúnaðarráðherra. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur mér ekki tekist að fá viðtal hjá honum, en hef nýlega leitað til stjórnar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð og beðið hana að styðja við beiðnina. Það hefur stjórnin gert, en Steingrímur J. Sigfússon ráðherra landbúnaðarmála hefur ekki gefið færi á viðtali.

Matvælastofnun
Framan af vildi Matvælastofnun (MAST) ekki sinna veikindum hrossanna. Ræddi ég í júlí 2007 símleiðis við dýralækni hrossasjúkdóma hjá MAST, Dr. Sigríði Björnsdóttur, en hún vísaði málinu tafarlaust frá. Sagði hún MAST einungis hafa fjármagn til að rannsaka smitsjúkdóma í hrossum - og varla það. Aftur hafði ég samband við hana 23. ágúst 2010 þegar hryssan Sunna veiktist enn og þá sýndi hún meiri áhuga og vildi fá að fylgjast með framvindu málsins. Hún hafði þó ekkert frumkvæði.

Ég sendi fyrst formlegt erindi (beiðni um opinbera rannsókn) til MAST 19. apríl 2009. Erindið var sent áfram til UST þann 19. maí 2009. (UST leitaði svo álits MAST síðar og byggði niðurstöðu sína á því).

Eftir eindregna áskorun frá mér vorið 2011 (eftir að UST hafði hafnað rannsókn) sjá bréf 19. maí og 12. júní, ákvað yfirdýralæknir, Halldór Runólfsson, að láta fara fram einhvers konar rannsókn sem hann vildi ekki skýra nákvæmlega fyrir mér. Ég lagði mikla áherslu á að rannsóknin yrði ýtarleg og var ákveðin í að fylgja því eftir.

Ég lagði til þrjú hross í þessa rannsókn og ég batt miklar vonir við hana. Öll þrjú hrossin voru á besta aldri. Flutti ég þau til Hvammstanga þann 24. júní 2011. Þar voru þau aflífuð og sýni tekin úr þeim af Ingunni Reynisdóttur dýralækni. Sýnin voru úr beinum, lifur, nýrum, og fitu. Ég flutti svo sýnin að Keldum sama dag að fyrirmælum Dr. Sigríðar Björnsdóttur sérfræðings hjá MAST. Allt var þetta á minn kostnað. Strax á Keldum fann ég fyrir ákveðnu viðmóti, þannig að mér var augljóslega ekki ætlað að fylgjast með rannsókninni. Mér var sagt að upplýsingar yrðu sendar til Sigríðar Björnsd. Þó Sigríður sé í mínum huga ekki mjög alþýðleg kona, vildi ég ljúka þessu og samþykkti að hún kæmi í heimsókn að Kúldalsá til að skoða hrossin á bænum. Það gerðist þann 22. ágúst. Hún kom ásamt Vilhjálmi Svanssyni dýralækni. Úttekt Sigríðar var mjög sérstök og fyrir mig sem fram að þessu hafði treyst Matvælastofnun, var þessi heimsókn martröð líkust. Sigríður hlustaði ekki á neinar athugasemdir og óð frá einu hrossi til annars metandi fitustig hvers og eins, eins og það væri aðal markmið heimsóknarinnar. Sem betur fer voru með mér á bænum Edda Kristrún dóttir mín og Daniela Gross vinkona okkar sem geta staðfest aðferðir Sigríðar. Vilhjálmur lagði ekki mikið til málanna.

Eftir úttektina var niðurstaða send til mín. Hún var síðar birt á vefsíðu MAST. Þar var spjótum beint að mér sem hrossahaldara og talið að ég hafi bæði offóðrað hrossin og ekki hreyft þau nægjanlega. Það væri ástæða veikindanna. Ekki er á það minnst að ég hafi áður en veikindin brustu á átt farsælan feril í hrossahaldi til áratuga. Allt var notað til að koma höggi á mig og svo lágt var lagst að jafnvel það að ég hafi meiðst í baki þá um vorið og ekki getað riðið út eins mikið og venjulega, var gripið á lofti og notað til að styðja niðurstöðuna. Svar mitt til yfirdýralæknis má sjá í bréfi dags. 2. okt 2011. Þar er m.a. bent á að ekki hafi verið mælt flúor í líffærum eins og ég óskaði eftir. Dr. Sigríður Björnsd. (ráðgjafi fyrir UST og sérfræðingur hjá MAST) skoðaði beinsýnin sjálf og dró sínar ályktanir. Voru fleiri sérfræðingar kallaðir til? Hvernig var rannsóknin gerð? Engu hefur verið svarað. Ég hafði því miður ekki orku til að senda inn stjórnsýslukæru, enda þótt það ég hefði auðvitað átt að gera það.

Reynslan af samskiptum við eftirlitsstofnunina MAST hefur því miður ekki aukið virðingu mína fyrir stofnuninni. Ég treysti sérfræðingum þar til að vinna faglega og lagði mig fram um að vinna með þeim. Stofnunin brást trausti mínu. Beiðni um að mæla flúor í sýnum úr líffærum hrossanna var hundsuð og engar skýringar gefnar á því. Það er mjög alvarlegt mál. Einhvers staðar í ferlinu hlýt ég að hafa stigið á viðkvæmar tær því sérfræðingar MAST létu ekki duga að sniðganga veigamikinn þátt í rannsókninni, heldur lögðu til atlögu við mig sem hrossahaldara og gerðu alvarlega tilraun til mannorðshnekkis í skýrslu sinni. Hver tilgangurinn er veit ég ekki.

Önnur stjórnvöld sem hafa komið að máli veiku hrossanna eru sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, sem hefur samþykkt stækkun svæðis fyrir mengandi iðnað á Grundartanga þrátt fyrir margar ábendingar um skort á rannsóknum um áhrif mengunarálags frá iðjuverunum á umhverfið. Sveitarstjórn greiddi kostnað við flúormælingar úr tveimur hrossum frá Kúludalsá og fékk kostnaðinn endurgreiddan frá Norðuráli. Eftir það var allri þátttöku í kostnaði vegna mælinga á beinsýnum úr hrossum hafnað, svo og þeirri beiðni minni að sveitarfélagið kostaði ítarlega skoðun hrossanna hjá sérfræðingum í dýralækningum. Sveitarstjórn hefur ekki leitað upplýsinga um afdrif hrossanna sem veiktust eða hvernig hrossahópnum á Kúludalsá reiðir af. Þannig hefur það verið s.l. tvö ár, eftir að ég gafst upp á að leita til sveitarstjórnar um aðstoð vegna hrossanna. Býlið Kúludalsá og það sem þar gerist sýnist ekki vera áhugavert fyrir hina kjörnu fulltrúa í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, jafnvel ekki fyrir þá sem
fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fóru frá bæ til bæjar og töluðu fjálglega um umhverfismál og mikilvægi umhverfisverndar.

Búnaðarsamband Vesturlands hefur sýnt málinu áhuga en ekki brugðist við svo vitað sé. Búnaðarfélag Hvalfjarðar hefur engin viðbrögð sýnt, þó formanni þess hafi verið gert viðvart. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands sýndi málinu áhuga fyrir um það bil tveimur árum en ekki síðan.

Afrit af erindum vegna veikinda hrossanna hafa verið send til ýmissa opinberra aðila.

Sameignarfélagið Faxaflóahafnir sem er í eigu sveitarfélaga við Faxaflóa, á landið undir álveri Norðuráls. Stjórn Faxaflóahafna er kunnugt um veikindi hrossanna en hefur aldrei haft frumkvæði til að kynna sér framvindu málsins. Faxaflóahafnir eru að mestu í eigu Reykjavíkurborgar. Sameignarfélagið hefur unnið að því að koma mengandi iðnaði fyrir í Hvalfirði með það að leiðarljósi að efla atvinnulíf á svæðinu. Þar á bæ tala menn mikið um að landið á Grundartanga sé skilgreint iðnaðarsvæði og hafi verið það síðustu áratugi. Bændur og aðrir í nágrenninu hefðu átt að skilja að því gætu fylgt nokkur óþægindi (sbr. fund með stjórn Faxaflóahafna, fund með framkvæmdastjóra og tvo fundi með stjórnarformanni).
Vert er að minna á að býlin við Hvalfjörð eru á skilgreindu landbúnaðarsvæði.

Að lokum


Íreka skal það sem áður hefur verið sagt, að í framtíðinni þarf Hvalfjörður að verða aftur hreint svæði þar sem öruggt er að stunda búskap, enda er svæðið skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Landnytjar eru um allan Hvalfjörð og mikið framleitt af matvælum. Eins og málum er háttað nú veit enginn um raunverulega dreifingu flúors um svæðið. Enginn veit hvort áhrifa flúors gætir í matvælum þannig að hætta stafi af. Mælingar sem ég hef látið gera gilda aðeins fyrir hrossin á Kúludalsá. Þau sem ég lét fella á síðasta ári voru að sjálfsögðu ekki nýtt til manneldis.

Ég fylgist með hrossunum mínum frá degi til dags og hef áhyggjur. Ég velti því fyrir mér hversu lengi sönnunarbyrði í þessu ótrúlega máli eigi að hvíla á mínum herðum. Mér finnst tíminn vera að hlaupa frá okkur vegna þess að ástandið batnar ekki, það bara versnar og getur bitnað á mörgum.

Á síðustu árum hefur reynslan kennt mér að reikna ekki með því að mikilvæg erindi fái skjóta og réttláta meðferð innan opinberrar stjórnsýslu á Íslandi. Ég hef einnig lært að embættismenn innan stjórnsýslunnar hafa meiri völd en ég hélt að þeir hefðu til að beina málum í annan farveg en þeim var upphaflega ætlað. Ýmis hugtök eru til yfir þannig vinnubrögð en þau verða ekki tíunduð hér.

Að kynnast opinberri stjórnsýslu á þennan hátt er í sjálfu sér merkilegt. Ég hef pælt í gegnum háskólanám í stjórnsýslufræðum og í kjölfarið upplifað starfshætti opinberrar stjórnsýslu á eigin skinni, starfshætti sem ég hélt að væru löngu aflagðir á Íslandi. En stjórnsýslufræðin eru einnig gagnleg til að búa til fjarlægð frá ónotalegum upplifunum. Með hugmyndum og kenningum þeirra má skoða "landslag" stjórnsýslunnar og reyna að greina það.

Svo er það mannlegi þátturinn. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hrossin sín veikjast hvert á fætur öðru og vera viðstaddur aflífun og krufningu dýra sem maður hefur þekkt alla ævi þeirra, tamið, ferðast á og unnið með. Ég hef oft undrast hvernig maður getur staðið þetta af sér. Líklega eru fleiri en eitt svar til, en ég hef fundið að það hjálpar mikið að heyra uppörvandi orð og vita að góðar hugsanir eru sendar. Ég er mjög þakklát fyrir það allt. Meistari Megas segir "Svo skal böl bæta að benda á annað verra." Þegar mikið gengur á hugsa ég gjarnan um einhverja staði þar sem stríð geysar, eins og til dæmis í Austurlöndum nær. Það er þó að minnsta kosti skárra að búa hér, eða hvað? Stundum get ég ekki svarað því.

Vona að þú, lesandi góður, vitir meira nú en áður um hvað flúormálið við Hvalfjörð snýst og takir höndum saman með okkur sem viljum vernda Hvalfjörð og stuðla að því að hér verði hægt að búa í framtíðinni.

Takk fyrir lesturinn.

Kúludalsá í Hvalfirði á haustmánuðum 2012.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

P.S. Það sem bætist við af viðburðum verður sett í einhvers konar dagbókarform hér á vefnum.