Enn um heilsu hrossanna
31. janúar 2013
Lesa má greinargerð um heilsubrest hrossa á Kúludalsá undanfarin ár, þ.e. frá vorinu 2007 og fram í október 2012 hér.

Síðan ég skrifaði greinargerðina hef ég auk viðtals við Svandísi Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, fengið viðtal við atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrím J. Sigfússon og rétt er að taka fram að ég hef nú gert skyldu mína við að kynna málið og ábyrgðin er að verulegu leyti á annarra herðum. Í framhaldi af fundum með ráðherrunum hittust þeir sem tengjast málinu mest, þ.e. fulltrúar úr ráðuneytunum tveimur, fulltrúar frá MAST og UST og Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð auk mín, þar sem ég kynnti enn einu sinni niðurstöður mælinga flúors í mjúkvefjum fjögurra hrossa frá Kúludalsá. Á fundinum voru fulltrúar MAST og UST beðnir að koma með tillögur um framhald málsins.

Hugur er í ráðherrunum tveimur að komast til botns í málinu og hafa þau lagt drög að vinnu í sambandi við það. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð er einnig að undirbúa frekari gagnaöflun á eigin vegum. Sjálf hef ég auk þess að sinna hrossunum sem eftir eru, þar af einum sjúklingi, aflað heimilda um áhrif flúors á mjúkvefi manna og dýra. Margar og ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á mönnum og enginn vafi leikur á því að flúor gerir ýmislegt fleira en að safnast í beinvefi! Minna er til af rannsóknum á hrossum en líkur benda til að þau hafi ekki verið látin njóta vafans fremur en aðrir grasbítar þegar viðmiðunarmörk um flúor í grasi og þurrfóðri voru sett af Umhverfisstofnun vegna flúormengandi iðnaðar. Við athugun má sjá að viðmiðunarmörkin sem dýrunum er ætlað að lifa við eru ekki studd veigamiklum rökum. Staðreyndin er sú að heilu landbúnaðarhéruðin eiga allt sitt undir því að fagaðilar kunni fótum sínum forráð í fræðunum. Því miður virðast ekki nægjanlega margir í ábyrgðarstöðum innan hérlendra eftirlitsstofnana með umhverfismengun hafa áttað sig á þessu - ennþá.

Hér má sjá hryssuna Spá,sp.jpg - 325.89 Kb 15 vetra (dóttur Kolfinns frá Kjarnholtum og Perlu frá Kúludalsá). Spá hefur safnað í makkann þó hún hafi verið höfð á húsi á vetrum og ekki lent eins mikið í útsleppi frá iðjuverunum eins og þau hross sem ganga úti allt árið. Spá er ein af hryssunum sem haldið hefur verið undir stóðhest án árangurs, en ófrjósemi er þekktur fylgifiskur flúormengunar. Reynt verður að halda Spá undir stóðhest í vor. Hún hefur í vetur verið námskeiðshesturinn minn á endurmenntunarnámskeiði Lbhí sem nefnist Reiðmaðurinn. Ég vona að þessi góða hryssa geti eignast fleiri afkvæmi, en hún á eina dóttur undan Dyn frá Hvammi. Spá er skemmtileg blanda af ýmsum stofnum m.a. hornfirskum "vatnahestum." Hún er kjarkmikil, vinnusöm og afar vel gefin!