Silfursmiðurinn


„Ég hugsaði ekkert um auð og allsnægtir.“


Um silfursmiðinn þjóðhaga, Kristófer Pétursson á KúludalsáÍ lok nítjándu aldar var æfistarf  barna á Íslandi nánast fyrirfram ákveðið og réðist einkum af því hvort unnt var að komast yfir jarðnæði til búskapar eða hvort leita þurfti í vinnumennsku til að sjá sér farborða. Afar fáir gengu menntaveginn, einungis þeir efnameiri og úr þeirra röðum næstum eingöngu drengir. Afi minn, Kristófer Pétursson, átti þess kost að verða stórbóndi. Hann hneigðist ekki til búskapar, þó slíkt yrði hlutskipti hans um langa hríð. Hann var kominn vel yfir miðjan aldur þegar hann gat helgað sig silfursmíðum sem hann hafði svo lengi dreymt um. Ýmislegt hefur verið skrifað um Kristófer og listsköpun hans eins og sjá má í heimildaskrá og hægt að leita í þær heimildir til frekari fróðleiks.

Ætt og uppruni

Kristófer Pétursson var fæddur 6. ágúst 1887 að Stóru-Borg í Vestur-Húnavatnssýslu, einn af fimm börnum hjónanna Þrúðar Elísabetar Guðmundsdóttur húsfreyju,Vigfússonar prests á Melstað í Miðfirði og konu hans Guðrúnar Finnbogadóttur og Péturs Kristóferssonar bónda og smiðs, Finnbogasonar bónda á Stóra-Fjalli í Borgarfirði og konu hans, Helgu Pétursdóttur Ottesen sýslumanns frá Svignaskarði í Borgarfirði. Pétur faðir Kristófers var fæddur að Háuhjáleigu við Ytra-Hólm í Innri-Akraneshreppi en fjölskyldan flutti síðar að Stóra-Fjalli í Borgarhreppi í Borgarfirði.
mynd 1   kristfer 10 ra.jpg - 297.19 KbMynd 1. Kristófer 10 ára árið 1897. (Ljósmyndari William G. Collingwood)

Heimilið á Stóru-Borg var vel efnum búið og að ýmsu leyti frábrugðið venjulegum sveitaheimilum. Þar var margt fólk til heimilis og oft líf og fjör. Kristófer lærði ungur að spila á harmonikku og lék undir dansi heima á Stóru- Borg og víðar í sveitinni (Guðmundur Björnsson).
Gestkvæmt var á Stóru-Borg. Þangað komu bæði innlendir og erlendir gestir sem ferðuðust um landið svo sem athafnamaðurinn Thor Jensen, listmálarinn William G. Collingwood, hrossa- og sauðakaupmaðurinn Coghill og enskir og skoskir veiðmenn sem dvöldu á Stóru-Borg á sumrum og veiddu í Víðidalsá. Fyrir þá lét Pétur smíða vandað íbúðarhús sem stendur enn. Með sauðaverslun Coghills komust peningar í umferð á Íslandi. Sagt er að ýmsir bændur í Húnavatnssýslu hafi hagnast vel af viðskiptum við Coghill og getað sent syni sína til mennta.

Kristófer segir þannig frá lífinu á Stóru-Borg (Gísli Sigurðsson):
Ég ólst upp á ríku heimili ...Faðir minn bjó stórt að höfðingja sið og hafði mikið umleikis. Í þann tíð gistu tignir gestir á Stóru-Borg. Collingwood gisti hjá okkur og teiknaði mikið af myndum. Meðal annars af Borgarvirki. ... Faðir minn, Pétur Kristófersson, varð fyrst og fremst auðugur á sauðasölunni til Englands. Þá voru sauðirnir seldir á fæti og fékkst afbragðsverð fyrir þá. En heimilið var reyndar vel efnum búið fyrir og faðir minn vann ekki eins og títt er um bændur núna. Hann gerði aðeins það sem hann langaði til og var mjög á ferðalögum. Hann fór til dæmis í verslunarferðir til Englands og þar kynntist hann Coghill, sem flutti út sauðina héðan. Eftir það varð faðir minn aðal umboðsmaður hans og ferðaðist með honum víða um land.

Árið 1906 lést Pétur og tók Kristófer við búsforráðum með Elísabetu móður sinni, þá 19 ára gamall.

mynd 1 heimilisflki  stru-borg 1888 2.jpg - 422.96 KbMynd 2. Heimilisfólkið á Stóru-Borg árið 1888.

Búskapur og smíðar


Kristófer sýndi snemma hæfileika við smíðar. Pétur faðir hans átti góða smiðju og verkfæri til kopar- og járnsmíða. Hugur Kristófers stóð til mennta og hann stundaði nám í Búnaðarskólanum á Hólum veturinn 1904-1905. Áhugasviðið var þó langtum fremur tengt smíðum en búskap og hann hafði hug á að læra úrsmíði. Naut hann tilsagnar í nokkra mánuði árið 1907 hjá Jóni Leví sem var til heimilis á Stóru-Borg. Jón Leví hafði lært gull- og silfursmíði í Kaupmannahöfn og síðar einnig úrsmíði. Kristófer reyndi að komast í úrsmíðanám í Reykjavík en það gekk ekki eftir. Þá hélt hann áfram að reyna sig við málmsmíðar og málmsteypu. Svo sá hann fallega víravirkisnælu sem ein af vinnukonunum á Stóru-Borg átti og varð hugfanginn af þeirri smíð. Reyndi hann að líkja eftir nælunni sem varð að talsverðu leiti hans örlagavaldur.

Kristófer var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var æskuunnustan, Steinvör Sigríður Jakobsdóttir frá Sigríðarstöðum í Vesturhópi. Hún lést úr berklum á Landsspítalanum í desember 1914. Sjúkrasjóðir voru engir í þá daga og þegar árangurslausum tilraunum til lækninga lauk, var Kristófer orðinn snauður maður. Til að minnast Steinvarar Sigríðar gaf hann Breiðabólstaðarkirkju vandað orgel og mælti svo fyrir að það skyldi einungis notað til kirkjulegra athafna. Kirkjan býr enn að þessum góða grip.

Seinni kona Kristófers var Guðríður Emilía Helgadóttir hjúkrunarkona frá Litla-Ósi í Miðfirði. Emilía, eins og hún var ævinlega kölluð, lærði hjúkrun hjá Steingrími Matthíassyni lækni á Akureyri og nudd hjá Soffíu Sigurjónsdóttur nuddlækni frá Laxamýri.
Þau Kristófer og Emynd 5 gurur emila helgadttir.jpg - 173.72 Kbmilía hófu búskap á jörð sinni Litlu-Borg í Vesturhópi árið 1918. Þeim varð sex barna auðið. Frumburðinn, dóttur, misstu þau unga. Upp komust Margrét Aðalheiður, síðar húsmóðir á Kúludalsá, Pétur, bifvélavirki í Hvalfirði, Steinvör Sigríður Guðrún, húsmóðir, kennari og prestsfrú á Útskálum í Garði, Ragnhildur Jakobína, skrifstofumaður og húsmóðir í Reykjavík og Þórður Jóhann Ólafur, úrsmiður í Reykjavík. Einnig ólu þau upp tvo systursyni Emilíu, Þórð og Guðmund Guðmundssyni sem settust síðar að í Garði á Reykjanesi með fjölskyldum sínum. Öll urðu þessi börn dugnaðar- og hagleiksfólk.

Mynd 3. Guðríður Emilía Helgadóttir

Á Litlu-Borg bjuggu Kristófer og Emilía til ársins 1946. Þá brugðu þau búi og fluttu suður að Kúludalsá við Hvalfjörð til dóttur sinnar Margrétar og tengdasonar, Þorgríms Jónssonar. Um það leyti hafði mæðiveikin herjað á sauðfé norðan heiða og bústofn þeirra Kristófers og Emilíu var orðinn harla rýr af þeim sökum. Það var því ekki frá miklu að hverfa efnalega séð en tilfinningalega hefur þessi breyting án efa reynt mjög á þau bæði.

Á búskaparárum sínum á Litlu-Borg smíðaði Kristófer fínustu skartgripi, steypti málma og gerði við hluti sem biluðu. Var því gestkvæmt á Litlu-Borg. Tími til fíngerðra smíða var af skornum skammti, en í Emilíu konu sinni átti Kristófer góðan bakhjarl sem gerði honum kleyft að grípa við og við til hinna dýrari málma við smíðaborðið sitt í lítilli kompu innst í bæjargöngunum. Að eigin sögn var Kristófer „bóndi í hjáverkum“ á Litlu-Borg, en Emilía var hinn raunverulegi bóndi. Ekki spillti að eiga sporlétt börn og búa sjálfur yfir mikilli þrautseigju.

mynd 2 msir hlutir tengdir hestamennsku 2.jpg - 415.37 KbMynd 4: Ýmsir smíðisgripir tengdir hestamennsku

Mynd 5:  Silfurskeið.
mynd 4 spuskei r silfri2.jpg - 181.33 Kb

mynd 3 nla.jpg - 102.84 KbMynd 6: BrjóstnálKristófer og Emilía voru greiðasöm og þegar komið var með biluð áhöld til Kristófers, þá gekk hann frá sínu verki, jafnvel úr ljánni í heyskapartíð, til viðgerða. Hef ég fyrir satt að fæstir komumenn hafi haldið áfram með verk hans á meðan, flestir hafi farið inn í bæ til Emilíu og þegið góðgjörðir. Ekki tíðkaðist að borga að neinu ráði fyrir viðgerðir í þá daga.

Kristófer var annálaður hagleiksmaður á málma og þekktur fyrir að taka lítið gjald fyrir smíðarnar. Í grein sinni „Hagleiksmenn í Húnaþingi“ ræðir Guðmundur Jósafatsson um verðlagninguna við Kristófer og segir: „Varðst þú ekki sá smiður sem raun gaf vitni vegna þess að þú kunnir að selja við hæfi þinnar samtíðar? Kristófer svarar:

Ég kunni ekki að selja. Hitt er líka satt. Kaupnautar mínir réðu ekki við hátt kaupverð. Þetta voru erfiðir tímar fyrir þjóðina. Peningar voru mjög takmarkað í umferð [...] ég hugsaði ekkert um auð og allsnægtir, aðeins að ljúka við hvern þann smíðisgrip sem fyrir hendi var hverju sinni, og að fá það fram sem ég átti bestan kost á, enda voru flestir ánægðir yfir skiptunum, þegar þeim var lokið.

mynd 4 stokkabeltispr 2.jpg - 158.91 Kb


Mynd 7: Stokkabeltispör. (Varðveitt í Byggðasafni Akraness og nærsveita).

Er þau Kristófer og Emilía fluttu suður, skildu þau eftir sig skarð sem var vandfyllt. Hagleiksmaðurinn var ekki lengur í smiðjunni sinni. Hjúkrunarkonan var ekki til staðar að líkna sjúkum og hjálpa sængurkonum. Ekki voru lengur sendar stálpaðar stúlkur frá Litlu-Borg til að létta undir með nágrönnum ef veikindi eða aðrir erfiðleikar steðjuðu að. En líknandi handa Emilíu naut á Kúludalsá því systkinunum fjölgaði. Hún tók á móti næst elsta barninu í janúar 1949 og undirritaðri í sólmánuði 1950 heima á bænum. Hún var mömmu stoð og stytta eftir að suður kom. Þannig fylgdi hún eftir heillaóskunum sem hún sendi foreldrum mínum í brúðargjöf á Friðardaginn 8. maí 1945.

Á heiðursdegi til heilla
í hendingum ég sendi
kveðju og árnaðaróskir
sem andi minn best fær vandað.
Standið þið saman sem sterkast
í stríði jafnt og blíðu
oft er stundum svo erfitt
okkar jarðról er skóli.

Vorið bindi ykkur blómsveig
bjartan og leggi að hjarta.
Allt það gullna og góða
geymir æskan í sjóði.
Njótið þið blessunar bæði
börn mín ykkur skíni
sól sælu og friðar
sem frá Drottni er sprottin.

Það varð allri fjölskyldunni mikil raun þegar Emilía veiktist af krabbameini sem dró hana til dauða þann 26. febrúar 1954. Kristófer varð ekkjumaður í annað sinn. Sem betur fer gat hann leitað í smíðarnar og það gerði hann. Heilladísirnar yfirgáfu hann aldrei þó stundum syrti í álinn. Sem fyrr sýndi hann tryggð sína í verki og færði bæði Sjúkrahúsi Akraness og Innra-Hólmskirkju gjafir til minningar um Emilíu konu sína.

Silfursmiður í fullu starfi


Þegar Kristófer var kominn suður að Kúludalsá gat hann áhyggjulítið helgað sig smíðum og það gerði hann í aldarfjórðung. Í íbúðarhúsi sínu hafði hann bjarta og rúmgóða smíðastofu  sem hann útbjó með aragrúa af tækjum, stórum og smáum. Þangað inn fóru menn ekki óboðnir. Við börnin á bænum bönkuðum á dyrnar þegar við áttum erindi við afa og lærðum að bera virðingu fyrir öllu sem tengdist smíðunum. Mikilvirkastur var Kristófer við smíði skartgripa úr víravirki á þjóðbúninga kvenna, upphluti, peysuföt og skautbúninga.

kristfer vi smar.jpg - 116.12 Kb
Mynd 8. Kristófer við smíðar á Kúludalsá.


mynd 7 skautbningur2.jpg - 216.60 KbMynd 9. Skautbúningur í eigu Kvenfélaganna sunnan Skarðsheiðar. (Varðveittur í Byggðasafni Akraness og nærsveita). Kristófer smíðaði stokkabelti og annað silfur á búninginn sem enn er notaður við hátíðleg tækifæri.

mynd 10 stokkabelti2.jpg - 114.73 KbKristófer greinir þannig frá breytingum á högum sínum í samtali við Guðmund Björnsson:
Árið 1946 fluttumst við að Kúludalsá í Innri-Akraneshreppi, en Margrét dóttir okkar var búsett þar, gift Þorgrími bónda Jónssyni [...] Þar fengum við til umráða rúmgott húsnæði og höfðum það gott að öllu leyti. Gaf ég mig nú eingöngu að silfursmíðum, en til þess hafði hugur minn alltaf staðið að vera ekki við annað bundinn. Fullkomnaði ég verkstæði mitt með nýjum og betri tækjum og verkfærum en fram eftir árum varð ég mest að notast við verkfæri sem ég smíðaði sjálfur og mörg þeirra á ég enn. Enga tölu hef ég á þeim gripum úr silfri og gulli, er ég hef smíðað öll þessi ár, en þeir hafa borist um land allt og einnig töluvert til annarra landa, svo sem til Norðurlanda, Þýskalands og Ameríku. Mest var það tilheyrandi kvenbúningum, er þá tíðkuðust, skautbúningi, peysufötum og upphlutum. Einnig kvensilfur margskonar, nisti, nælur, hálsfestar og eyrnalokka. Nokkuð smíðaði ég af giftingarhringum og steinhringum úr gulli, en vegna þess hve efnið var dýrt, gat ég ekki keypt það svo nokkru næmi, því varð minna úr þeirri smíði en annars hefði orðið.

Þegar hér var komið sögu sótti Kristófer um meistararéttindi í gullsmíðum hjá Gullsmiðafélagi Íslands. Hann lagði fram til mats, skartgripi sem hann hafði smíðað og það gladdi hann mjög að fá meistarabréfið, en þá hafði hann smíðað skartgripi úr eðalmálmum í um 40 ár ásamt margskonar öðrum smíðum.

Að verulegu leyti voru verk Kristófers í hefðbundnum stíl en hans eigin hönnun markaði þó útlit þeirra, einkum þegar á leið.
mynd 8 kristfer heldur  stokkabelti.jpg - 535.54 Kb Mynd 10: Kristófer heldur á stokkabelti.

Frá smíðastofunni fóru gripir til nýrra eigenda og voru það oftast konur á ýmsum aldri. Kristófer talaði um þær af mikilli virðingu og kallaði þær alltaf „stúlkurnar.“ Við krakkarnir áttum stundum erfitt með að verjast brosi því í okkar augum voru þær sumar of aldurhnignar til að geta kallast stúlkur, en að sjálfsögðu orðuðum við það ekki í hans návist. Meðal þeirra sem nutu góðs af handverkinu voru dætur hans.mynd 9 dturnar  upphlut ri 1976.jpg - 227.56 KbMynd 11: Dæturnar þrjár í upphlut. Frá vinstri: Ragnhildur, Steinvör og Margrét.

Kristófer tók ekki nemendur í silfursmíði eftir að suður kom, að undanskildu einu barnabarna sinna, um tíma. Í viðtali við Björn Bergmann gætir eftirsjár hjá honum vegna þessa, þar sem hann segir að þekkingin hans muni nú fara forgörðum, að honum gengnum. Á öðrum stað í viðtalinu kemur fram að hann hafi reynt að taka nemendur áður fyrr en það hafi ekki átt við hann því þeir hafi orðið of sjálfstæðir og jafnvel strax á öðrum degi talið sig betri en hann í listinni! Í máli hans kemur fram að hann hefur, framan af æfinni, fundið til þess að hafa ekki tilskilin réttindi sem gullsmiður og þess vegna ekki notið þeirrar virðingar í stéttinni sem æskileg var.

Þegar Kristófer þurfti að leggja frá sér verkfærin fyrir fullt og allt upp úr 1970 var hann orðinn elsti starfandi gull- og silfursmiður á landinu. Síðasta stóra viðfangsefni hans var fallegt víravirkisskart á þjóðbúning handa stúlku sem var að ljúka stúdentsprófi. Þá var hann 83 ára og mörg verk voru í pöntun. Hendurnar voru enn styrkar en sjónin biluð.

Sagt er að lífið sé stutt en listin löng. Það fékk Kristófer að reyna, en hann notaði tímann sinn vel. Á Kúludalsá lifði hann það að sjá draum sinn rætast. Hann hefði auðvitað viljað komast til mennta og getað þannig lagt fyrr grunn að smíðunum og afkastað meiru. Um þessa stöðu segir Gísli Kristjánsson „ekki gáfust tækifæri til að sjá undur hliðstæðra smíða á sýningum eða annan hátt á erlendri grund“ og vitnar hann í Kristófer:

„Skóli reynslunnar ... það var minn skóli“ sagði hann eitt sinn þegar hann átti erindi við mig. „hann var mér dýr því ég þurfti mörg ár stundum til að ná því marki, sem aðrir læra hjá góðum kennurum á dögum eða vikum.

Fróðlegt er að heyra frá núlifandi gullsmið hvernig hann upplifði kynnin af gull- og silfursmiðnum á Kúludalsá.

Halldór Kristinsson gullsmiður segir frá

Eftirfarandi er frásögn Halldórs Kristinssonar gullsmiðs af heimsókn til Kristófers á Kúludalsá. Halldór sem nú er 85 ára skráði frásögnina að beiðni Magnúsar bróður míns um það leyti er sýningin „Silfur Íslands“ var opnuð. 

Á tímabilinu 1950 – 1954 vann ég sem sveinn á verkstæði Jóns Sigmundssonar á Laugavegi 8. Margs er að minnast frá þeim tíma, en ég ætla að reyna að rifja upp eitt sérstakt tilvik sem skeði þá.

Við vorum fimm gullsmiðir og nemar sem störfuðum á þessu verkstæði. Formaður verkstæðis var lærimeistari minn, Guðmundur Eiríksson. Svo bar við einn dag, að búðarstúlkan sem var yfir þeim þremur er unnu í búðinni, kom inn á verkstæði og sagði Guðmundi að frammi væri maður sem vildi fá að tala við formann verkstæðisins.

Guðmundur fer fram og innan stundar kemur hann inn og maður með honum, sem hann kynnir fyrir okkur og segir hann vera þekktan silfursmið utan af landi. Hann heiti Kristófer Pétursson og búi nú að Kúludalsá á Hvalfjarðarströnd.

Meistari sýnir því næst verkstæðið og þeir spjalla margt. Samt minnir mig að gesturinn væri að leita ráða, hvar hægt væri að fá „löð“, tæki sem notað var til að skrúfa vírinn sem kallað var. Einnig ræddu þeir um víravirkissmíði og sýndi hann okkur gripi sem hann hafði smíðað. Kom það á óvart hvað hann hafði farið út fyrir það staðlaða form, ef svo mætti segja, um smíði á íslenska búningnum. Þar var greinilega um framúrstefnu að ræða.

Er Kristófer fór sagði meistari okkur nokkur deili á honum sem smið og gat þess að hann væri vel þekktur í faginu og talinn góður smiður, sem komið hefði með margar nýjungar í gripum sínum og ekki nóg með það, hann starfaði alla tíð úti á landi, samhliða búskap og smíðaði sér oft verkfæri til eigin brúks. Hann var yfirlætislaus og prúður og kom vel fram í alla staði, næstum feiminn.
Nokkrum dögum síðar hefur Guðmundur máls á því, hvort við værum til í að heimsækja Kristófer, hann gæti skaffað ódýran bíl með bílstjóra. Jú, jú, flestir voru til í það og sérstaklega Svisslendingurinn, til að skoða aðstæður og sér í lagi þau verkfæri sem Kristófer hefði smíðað sér sjálfur. Hann heitir Hans Langenbacher og er Íslandsvinur mikill.

Ferðadagur var síðan ákveðinn og fórum við fimm saman sem leið lá í þá daga, fyrir Hvalfjörð og sömu leið til baka. Kristófer tók vel á móti okkur og eftir kaffiveitingar hjá dóttur hans, Margréti, bauð hann okkur til verkstæðis síns.

Og hversu undrandi við vorum fá orð ekki lýst. Því miður man ég ekki hversu mörg verkfæri hann hafði smíðað sér og til hverrra hluta þau voru, en skínanadi koparinn á hverjum hlut sagði sína sögu. Hagleikur og hugur sýndu mæta vel að hér hafði hagur maður staðið að verki, mörg handhæg verkfæri svo sem snúningsvél til að gera rifflaðan vír og annað mætti ætla að væri nýkomið frá útlandinu. Í lokin sýndi hann okkur fullsmíðaða gripi með nýrri útfærslu á víravirki, sem enginn hafði áður séð. Svisslendingurinn dáði mest samt þau áhöld og verkfæri sem hann hafði smíðað.

Nú var orðið áliðið dags og löng ferð fyrir höndum til baka. Við kveðjum Kristófer með virktum og þakklæti fyrir sýningu á verkstæði og smíðisgripum. Frásögn af þessari ógleymanlegu ferð segi ég svo lokið. Ekki er farið út í smáatriði, en reynt að fara rétt með.

Sýningin „Silfur Íslands“

Á 150 ára afmæli Þjóðminjasafns Íslands var sett upp sýning sem bar heitið „Silfur Íslands.“ Aðalsýningin var í Bogasalnum, en í herbergi til hliðar við Bogasalinn var sett upp sýning á dæmigerðri aldamótasmiðju, til að veita innsýn í aðstæður fyrri tíma þegar hagleiksmenn á góðmálma sinntu smíðum við lítil þægindi og notuðu oftar en ekki heimatilbúin verkfæri. Sú sýning var nefnd „Silfursmiður í hjáverkum.“


mynd 11 a.jpg - 39.64 Kb

mynd 11 b.jpg - 38.30 Kb
Myndir 12 og 13: Frá sýningunni „Silfur Íslands.“Þór Magnússon fyrrum þjóðminjavörður og Kristófer voru mestu mátar. Þegar Kristófer hætti að geta smíðað vegna sjóndepurðar, fékk Þór alla muni úr verkstæðinu, þar með talin heimasmíðuðu verkfærin. Allt var þetta í vörslu Þjóðminjasafnsins í um 40 ár, þar til undirbúningur afmælissýningarinnar hófst, en þá voru munirnir úr verkstæðinu hans Kristófers teknir fram. Í ljós kom heildstæðasta og best varðveitta safn af gripum frá silfursmíðum fyrri tíma. Sett var upp dæmigerð aldamótasmiðja sem sýndi m.a. heimasmíðuð verkfæri og hvernig silfur var „kveikt“ við olíulampa og uppistaðan í henni var verkstæði Kristófers. Aldamótasmiðjan var mikilvægur hluti sýningarinnar „Silfur Íslands“ en hún stóð yfir í Þjóðminjasafninu í tvö ár.

Að alast upp með afa

Í huga mínum, sem þekkti afa Kristófer frá fyrstu tíð, er auðvelt að kalla fram skýrar minningar því afi hafði stóra persónu og mikla útgeislun. Hann var ekki mikið fyrir að hampa okkur krökkunum og kunni hvorki við ærsl né hávaða, en ég man ekki eftir nokkru styggðaryrði frá honum þó út af  brygði. Hann hefði ekki þurft að segja margt, því þegar hann tók til máls þá var hlustað. Einhvern tíma þegar við vorum að ærslast spurði afi okkur að því hvort við kynnum handahlaup. Alla setti hljóða. Þá sýndi afi, sem þá var um sjötugt, okkur listina og fór létt með. 

mynd 12  sjtugs afmli afa fyrir utan hsi hans.jpg - 110.48 KbMynd 14.
Á sjötugsafmæli afa. Myndin er tekin við húsið hans á Kúludalsá. Talið frá vinstri: Þorgrímur og Margrét á Kúludalsá ásamt þremur börnum: Jóni Ragnari og Kristófer Emil og Ragnheiði Jónu. Steinvör og Guðmundur á Útskálum með Hrafnhildi dóttur sína. Að baki þeim er Jón Ágústsson maður Ragnhildar, með Hafþór son þeirra, þá afmælisbarnið Kristófer Pétursson og Ragnhildur. Á myndina vantar syni Kristófers og fleiri úr stórfjölskyldunni.

Afi var okkur krökkunum góð fyrirmynd. Hann var prúður maður, orðvar, vinnusamur og skipti ekki skapi. Ég get séð hann fyrir mér, sitjandi við suðurgluggann á smíðastofunni sinni, sem hann kallaði reyndar „verksteði“ upp á dönsku og þar var hann í ríki sínu. Gestkvæmt var hjá afa því margir vildu skoða smíðisgripi og panta nýja. Það tíðkaðist að bjóða gestum í kaffi, sem flestir þáðu og komu þá yfir til mömmu. Mitt hlutverk var oft að leggja á borð – ekki í eldhúsinu heldur alltaf í stofnunni og nota sparistellið. Þar naut ég þess að hlusta á samtöl fullorðna fólksins um smíðar og smíðisgripi og margt fleira, því afi var sagnamaður.

Stundum fór afi í innkaupaferðir til Reykjavíkur. Hann kannaðist við alla gull- og silfursmiði í bænum og úrsmiðina líka. Í þessum ferðum heimsótti hann börnin sín sem þar bjuggu og fjölskyldur þeirra. Á  ferðalögunum hafði afi alltaf með sér litla brúna handtösku sem í voru víravirkisgripir, smíðaefni og svo það sem öll börn sóttust eftir: Síríus suðusúkkulaði. Þegar afi opnaði handtöskuna til að ná í það síðastnefnda var hann rausnarlegur, aldrei minna en heil rönd á mann og stundum var boðið tvisvar!

Afi sinnti ekki búverkum eftir að hann kom að Kúludalsá, nema að eigin ósk, en hann smíðaði allt mögulegt, meðal annars brennijárn fyrir kindur. Ég man eftir honum úr reykmettaðri smiðjunni sem var í viðbyggingu við húsið hans. Þar var allt öðru vísi umhorfs en í smíðastofunni, staflar af efni og haugur af úrgangsmálmi og svo opinn eldur þar sem hann hitaði skeifnatein og sló hann til í skeifur og vann ýmislegt fleira sem notað var á bænum. Þannig lagði afi sitt af mörkum til búsins og lét sér annt um að allt færi vel, ekki síst skeifurnar undir hestunum.

mynd 13 brennijrn fyrir kindur   kludals2.jpg - 369.52 KbMynd 15. Brennijárn fyrir kindur.

Enda þótt afi brygði sér í smiðjuna við og við, færi í fjárhúsin til að velja ásetningsgimbrar með pabba á haustin, eða tæki orf sitt og ljá til að slá þar sem traktor og sláttuvél náðu ekki til, þá var hann alltaf snyrtilegur, vel til fara og gekk vel um. Hann vildi gjarnan að við krakkarnir tileinkuðum okkur slíkt hið sama. Fyrsta hrósið sem ég man eftir frá honum var fyrir vel mokaðan flór í fjósinu „alveg listavel mokaður“ sagði afi á þann hátt að ekki gleymist.mynd 14  hlsmen  eigu greinarhfundar2.jpg - 398.84 KbEftir því sem árin líða hefur sú hugsun læðst að mér æ oftar að afi hafi verið meiri búmaður en hann vildi vera láta þó ekki væri hann fjáraflamaður. Þegar skoðaðar eru aðstæður norður á Litlu-Borg, má sjá að ekki var mögulegt að vera með mikil umsvif á svo lítilli jörð og að það hlýtur að hafa verið afrek að koma upp barnahópi við þessi naumu efnislegu skilyrði.

Afi átti oft leið á milli íbúðarhúsa á Kúludalsá því hann var í fæði hjá foreldrum mínum. Það þótti nokkuð sérstakt að sjá þennan fullorðna mann hlaupa við fót á milli húsanna, á þunnum jakka hvernig sem viðraði. En þannig var afi, léttur á fæti og fór helst ekki í úlpu nema þegar hann átti erindi í kaupstað.

Afi var svo lánsamur að halda andlegu atgerfi á ævikvöldinu og þurfa hvorki að liggja rúmfastur né þjást. En sjónin var orðin döpur og þar með frá honum tekinn aðgangur að þeim veraldlegu gæðum sem hann mat mest. Hann andaðist þann 9. nóvember 1977, skömmu eftir að hann hélt upp á níræðisafmælið. Þá hafði hann flutt sig um set og bjó á Elliheimili Akraness við gott atlæti.

Mynd 16: Hálsmen í eigu greinarhöfundar.

Ég hugsa hlýtt til afa og met mikils að hafa fengið að alast upp með honum. Á sama hátt og hann naut þess sem barn og unglingur á Stóru-Borg að umgangast innlenda og erlenda gesti sem fluttu nýjungar til landsins, þá hef ég alla tíð notið þess að hafa fengið innsýn í hans listaheim. Þökk sé afa fyrir það sem hann var mér meðan leiðir lágu saman. Þökk fyrir hinn merka menningararf sem listamaðurinn Kristófer Pétursson eftirlét samtíð sinni og komandi kynslóðum.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir
KúludalsáHeimildir


A.B.S. (1977, 6. ágúst). 90 ára Kristófer Pétursson frá Stóru-Borg. Dagblaðið Tíminn. Reykjavík. Bls. 15.

A.B.S. (1977, 6. ágúst). Kristófer Pétursson frá Stóru-Borg. - Níræður. Morgunblaðið. Reykjavík. Bls. 20 – 21.

Björn Bergmann. (Án árs). Viðtal við Kristófer Pétursson gullsmið. (Hljóðritað, líklega frá árinu 1976).

Daníel Ágústínusarson. (1971). Það var gull í pokanum. Rætt við Kristófer Pétursson gullsmið frá Stóru-Borg. Magni. Akranes. 5. tbl. 11. árg. Bls. 8 – 9.

Gísli Kristjánsson. (1983). Gullsmiðablaðið. Reykjavík. 4. tbl, 2. árg. Bls. 8 – 10.

Gísli Sigurðsson. (1962). Búskapurinn var mér kvöl. Rætt við þjóðhagann -Kristófer á Kúludalsá sem smíðar víravirki og stokkabelti úr silfri. Vikan. Reykjavík. 28. tbl. 24. árg. Bls. 8 – 9 og 43.

Guðmundur Björnsson frá Núpdalstungu. (1974). Kristófer Pétursson frá Litlu-Borg. Húnvetningur. Reykjavík. (Án árg.). 2. tbl. Bls. 32-39.

Guðmundur Jósafatsson. (1973). Hagleiksmenn í Húnaþingi: Spjallað við Kristófer Pétursson. Hugur og hönd: rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Reykjavík. (Án árg.). Bls. 4 – 8.

Halldór Kristinsson gullsmiður, Fannafold 2, Reykjavík. (2013, 21. feb.). Frásögn af heimsókn til Kristófers Péturssonar á Kúludalsá. (Óútg. frásögn).

Hulda Á. Stefánsdóttir. (1987). Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur: Húsfreyja í Húnaþingi. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., bls. 167 – 175.

Pétur Ottesen. (1957, 8. ágúst). Kristófer Pétursson Kúludalsá sjötugur. Morgunblaðið. Reykjavík. Bls. 10.

Per Lotzfeldt. (1968, 5. maí). Íslenzk gullsmíði. Lesbók Morgunblaðsins,15. tbl. Reykjavík. Bls. 10 - 11.

Þjóðviljinn. ( 1967, 23. apríl). Ný íslensk kvikmynd: Íslenskt skart. Reykjavík. Bls. 4 og 10.

Þorgrímur Jónsson. (1977, 18. nóvember). Kristófer Pétursson. Minning. Dagblaðið Tíminn. Reykjavík. Bls. 19.

Þór Magnússon. (1977, 6. ágúst). Kristófer Pétursson frá Stóru-Borg. - Níræður. Morgunblaðið. Reykjavík. Bls. 21 og 29.


Myndaskrá:
Mynd 1: Kristófer 10 ára á Stóru-Borg Myndina tók Collingwood árið 1897.
Mynd 2: Heimilisfólkið á Stóru-Borg árið 1888
Mynd 3: Guðríður Emilía Helgadóttir
Mynd 4: Ýmsir smíðisgripir tengdir hestamennsku
Mynd 5: Silfurskeið
Mynd 6: Brjóstnál
Mynd 7: Stokkabeltispör
Mynd 8. Kristófer við smíðar á Kúludalsá.
Mynd 9. Skautbúningur í eigu Kvenfélaganna sunnan Skarðsheiðar. (Varðveittur í Byggðasafni Akraness og nærsveita).
Mynd 10: Kristófer heldur á stokkabelti.
Mynd 11: Dæturnar þrjár í upphlut. Frá vinstri: Ragnhildur, Steinvör og Margrét
Myndir 12 og 13: Frá sýningunni „Silfur Íslands“
Mynd 14. Á sjötugsafmæli afa, utan við húsið hans. Talið frá vinstri: Þorgrímur og Margrét á Kúludalsá ásamt þremur börnum: Jóni Ragnari og Kristófer Emil og Ragnheiði Jónu. Steinvör og Guðmundur á Útskálum með Hrafnhildi dóttur sína. Að baki þeim er Jón Ágústsson maður Ragnhildar, með Hafþór, þá Kristófer Pétursson og Ragnhildur.
Mynd 15: Brennijárn fyrir kindur.
Mynd 16. Hálsmen í eigu greinarhöfundar.