Umhverfisstígur

Umhverfisstígur er gönguleið sem kennari hefur valið fyrir útikennslu. Unnið er með efnið út frá ákveðnum stöðvum á stígnum. Hægt er að raða saman mörgum efnisþáttum en einnig að skoða fáa þætti ítarlega.

Orðið umhverfisstígur felur í sér að allt í umhverfinu sé skoðunarvert, náttúran bæði lifandi og dauð, mannvirki og fólk. Það er val kennarans á hvað hann telur heppilegt að leggja áherslu. Á stígnum þarf að vera góð aðstaða til að skoða útsýni, gróður, dýralíf og steina, landnýtingu, mannvirki, lifnaðarhætti o.fl.

Viðfangsefni og aðferðir geta því verið margvísleg. Upplifun nemenda þarf að vera sterk, viðfangsefnin þurfa að fela í sér nýja reynslu og vekja forvitni. Nemendur þurfa að bera ábyrgð á námi sínu og taka virkan þátt og það þarf að stuðla að samvinnu þeirra. Það sem nemandinn síðan vinnur með og skilar af sér ætti að tengjast hans áhugasviði og miðast við það tjáningarform sem best hentar honum. Hér er um að ræða form eins og mælingar, teikningar, upplýsingaleit og skráningu, kortagerð, lestur, skriflegar lýsingar eða frásagnir og mótun.