Umgengni við hestinn

Hesturinn á að baki langa þróunarsögu. Hún spannar um 50 milljónir ára.

Á þessari löngu vegferð hefur hesturinn þurft að aðlagst mismunandi staðháttum og læra að verjast hættum af ýmsum toga. Fyrstu viðbrögð hans við aðsteðjandi hættu eru að taka til fótanna. Þess vegna er hann oft kallaður flóttadýr. Hann getur hræðst hljóð sem okkur mönnunum finnast meinlaus, til dæmis hróp og köll, ískur, skerandi hljóð og jafnvel smelli í tyggigúmmíi. 

Með tamningu er hægt að venja hestinn af hræðslu þar sem hann lærir þá að treysta manninum. Við skulum samt alltaf gera ráð fyrir eðlislægum ótta hestsins við áreiti sem hann þekkir ekki og taka tillit til þess með því  að fara rólega að hestinum og leyfa honum að kynnast nýju fólki á þann hátt sem hentar honum.

forvitni.jpg - 91.50 KbHesturinn notar lyktarskynið mikið og þarf því að þefa af því sem hann vill athuga. Það er gott að leyfa honum að lykta af höndunum en ekki leyfa honum að narta í þær!

Augu hestsins eru á hliðum höfuðsins þannig að hann sér best til hliðanna. Hann sér ekki beint fram fyrir sig og ekki heldur beint aftur fyrir sig. Þegar maður er að leggja hnakk á hest og ætlar að festa reiðann undir taglið er mikilvægt að láta hann vita hvað maður er að fara að gera til dæmis með því að strjúka lend hans og tala rólega við hann.

Eyru hestsins sýna hvað hann er að hugsa. Ef þau vísa fram er hann jákvæður. Ef þau vísa aftur er hann tortrygginn og ef þau eru á flökti fram og aftur þá er hann að hugsa og meta aðstæður. 

Hesturinn gefur frá sér ýmis hljóð. Í návist barna líður hestum yfirleitt vel og gefa þeir þá frá sér hljóð sem merkir að þeir slaki á. Spyrðu fullorðna fólkið hvað hljóðin þýða þegar þú heyrir þau.

Farðu alltaf rólega að hestum og mundu að þeir hugsa eins og hestar en ekki eins og menn!